Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[16:09]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að tjá mig fyrir þingflokkinn í máli sem við höfum ekki tekið sameiginlega afstöðu til. En hefði hv. þingmaður hlustað á ræðu mína fyrr í dag hefði hún heyrt að ég gagnrýndi verklagið 2016. Þetta var illa unnin tillaga á sínum tíma og ég gagnrýni að þetta sé lagt fram æ ofan í æ óbreytt þrátt fyrir breyttar aðstæður varðandi ýmsa kosti. Ég taldi upp ákveðna kosti þar sem svo háttar sérstaklega til að aðstæður kalla hreinlega á endurmat af varúðarástæðum, af náttúruverndarástæðum, af ýmsum öðrum ástæðum. Þetta gerði ég þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hefði beinlínis hvatt til þess að við myndum ekki fjalla um einstaka kosti.

Þetta finnst mér nefnilega stangast á við lýðræðisveisluna sem hv. þingmaður sér í því að flokkarnir séu hver um annan þveran að setja fyrirvara við þetta mál vegna þess að þetta er fyrri umræða um tillöguna. Næst kemur hún fyrir almenningssjónir til umræðu (Forseti hringir.) fullkláruð úr nefnd. Það hefði verið æskilegt, ef fólk meinti eitthvað með þessum fyrirvörum sínum, (Forseti hringir.) að það mætti hér í sal og segði nákvæmlega hvað það meinti með þeim frekar en að tala almennum orðum (Forseti hringir.) um að það ætti að stækka biðflokkinn án þess að það væri tilgreint nánar.