Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[16:11]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit nú ekki hvort einhverri spurningu var beint til mín í seinna andsvari frá hv. þingmanni heldur meira svona almenn gagnrýni á að ég tali hér um lýðræðisveislu og það að þingið geti fjallað um þetta mál. Ég stend við það sem ég sagði áðan. Mér þykir eðlilegt að þjóðkjörið þing fái að fjalla um þessa tillögu og ég virði þá sem hafa lýst yfir einhvers konar fyrirvara, að þeir þurfi ekki, við fyrri umræðu, að setja fram nákvæmar tillögur og fara að plokka eitthvað í þetta. Ég geri ráð fyrir því að þær vangaveltur muni allar koma upp í nefndinni. Hv. þingmaður kom inn á gagnrýni á vinnuna á sínum tíma og greinilega með hugmynd varðandi einhverja kosti. Ég geri líka ráð fyrir því að um það verði rætt í nefndinni. Ég bara ítreka enn og aftur það sem ég sagði áðan. Ég óska hv. umhverfis- og samgöngunefnd velfarnaðar í sínum störfum, hún mun fara yfir þessar tillögur, hvort eitthvað kunni að hafa breyst og þá hvort ástæða sé til að bregðast við í kjölfarið.