Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[16:12]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér hafa verið stigin metnaðarfull skref af stjórnvöldum og ég tel að um þau séu þverpólitísk samstaða, að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050. Ef við næðum þessu markmiði myndum við standa fremst allra þjóða í heiminum í loftslagsmálum. Það er ekki hægt að taka ákvörðun um að verða óháð jarðefnaeldsneyti án þess að taka ákvörðun um það hvaðan sú græna orka eigi að koma sem eigi að leysa af hólmi jarðefnaeldsneytið. Hér fyrr í dag var það nefnt að það sé ekki orkuskortur í landinu. Hvernig er hægt að halda þessu fram þegar greiningar Landsnets benda til hins þveröfuga, að líkur séu á að draga þurfi úr afhendingu skerðanlegrar orku í meðalvatnsári, ekki aðeins lélegu vatnsári, og það strax á næsta ári? Gangi áform um orkuskipti umfram spár eða aukning verður á fyrirtækjamarkaði verður staðan enn verri hvað þetta varðar. Í dag er verið að brenna olíu í fiskimjölsverksmiðjum. Það er ekki langt síðan þessar verksmiðjur voru hvattar til þess að fara í orkuskipti og keyra vélar sínar á raforku, hreinni íslenskri orku, í stað innflutts jarðefnaeldsneytis. Það er sömuleiðis verið að kynda heimili með jarðefnaeldsneyti í landinu, kynda hitaveitur með jarðefnaeldsneyti, og af hverju er verið að gera það? Jú, það er vegna skorts á rafmagni. Atvinnulífið getur með öðrum orðum ekki starfað eðlilega vegna þess að það er orkuskortur í landinu. Ný fyrirtæki verða ekki til því það er ekki til orka fyrir þau og það þýðir bara eitt, að við erum að tapa verðmætum. Við erum ekki að skapa gjaldeyristekjur.

Á Íslandi er framleitt mikið af raforku samanborið við önnur lönd og þá erum við að tala um það í samhengi við hina margumtöluðu höfðatölu. En það má setja þetta í samhengi við að við veiðum einnig gríðarlegt magn af fiski samanborið við hina margumtöluðu höfðatölu. Hér er vægi ferðaþjónustunnar sömuleiðis óvíða jafn mikið miðað við höfðatölu. Sérstaða okkar er því mikil hvað varðar raforkuframleiðslu og hefur okkur tekist að nýta orku okkar skynsamlega í gegnum tíðina með orkuskiptum í húshitun og rafvæðingu. Við erum á þeim stað í dag í orkuskiptum sem flestar þjóðir ætla að vera á eftir einhverja áratugi.

Orkumálin eru eitt helsta hagsmunamál byggða landsins. Það er þekkt staðreynd að raforkuskortur stendur uppbyggingu atvinnulífs fyrir þrifum úti um allt land. Í þessu samhengi verður að nefna flutningskerfi raforku sem er nánast komið að fótum fram. Við eigum orku í kerfinu sem við getum ekki fleytt til þeirra sem þurfa á henni að halda. Frá 2018 hefur Landsnet hafnað um 100 verkefnum vegna takmarkana í flutningskerfinu og er samfélagslegt tap af völdum orkuskorts a.m.k. 10 milljarðar á ári samkvæmt greiningum Landsnets.

Virðulegi forseti. Staðan í orkumálum er til skammar og það sér hver sem vill að sú vegferð sem við erum nú á er ekki í samræmi við metnaðarfull markmið okkar í loftslagsmálum. Fiskimjölsverksmiðjur landsins áætla að um 20 milljónum lítra af olíu verði brennt við bræðslu á yfirstandandi vertíð og þótt staðan sé grafalvarleg gagnvart umhverfinu þá er þetta um leið risastórt efnahagsmál fyrir fólk og fyrirtæki.

Í níu ár hefur Alþingi ekki samþykkt rammaáætlun. Á meðan erum við að glata ótrúlegum tækifærum við að skipta út innfluttu jarðefnaeldsneyti fyrir innlenda og hreina orkugjafa. Við verðum að færa okkur upp úr skotgröfunum og leggja okkur fram um að uppfylla metnaðarfull markmið ríkisstjórnarinnar. Þar er rammaáætlunin gott verkfæri til að finna hið fína jafnvægi milli verndunar annars vegar og sjónarmiða nýtingar hins vegar. Ef við ætlum að mæta þeim metnaðarfullu markmiðum sem við höfum sett okkur varðandi kolefnislosun þá verðum við að framleiða meiri orku. Við verðum að framleiða græna orku. Loftslagsbreytingar eru hnattrænn vandi og kemur okkur öllum við. Það er því engin lausn sem fylgir því að flytja orkufrekan iðnað héðan, frá grænni orku, til annarra landa þar sem mengunin er mun meiri. Við getum ekki beðið í önnur tíu ár eftir aðgerðum við öflun orku og styrkingu flutningsnetsins. Verkefnið er að tryggja hér næga orku til að geta aukið samkeppnishæfni landsins og þar með byggt undir velferðarkerfið okkar og aukið lífsgæði. Við ætlum okkur að uppfylla þau metnaðarfullu markmið sem við höfum sett okkur og ramminn er mikilvæg varða á þeirri vegferð. Höfum það ávallt hugfast að raforkukerfið okkar er forsenda efnahagslegra framfara.