Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[16:52]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Við erum að ræða rammann, áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Mig langar fyrst til að ræða þá stöðu sem er uppi, þ.e. að við erum að vannýta orku sem við höfum þegar framleitt með ærnum tilkostnaði á allan mögulegan máta. Við erum að vannýta hana með því að hafa ekki dreifikerfi sem virkar fyrir landið allt. Að mínu mati er eiginlega ekki hægt að fara út í þessa umræðu hér án þess að ræða það. Nú hefur töluvert verið rætt um ýmis atriði sem skýra það að við erum að leggja þennan ramma fram. Í því sambandi hefur verið rætt um stjórnarsáttmála, fyrirvara stjórnarflokka og það að þessi rammi hefur ekki verið ræddur árum saman o.s.frv. En það er heldur ekki hægt að ræða þetta án þess að tala um dreifikerfið. Það skiptir máli að útfæra löggjöfina þannig að hún tryggi sölu á orku til almennings en við þurfum líka skýrari leikreglur á þessum markaði. Við þurfum að tryggja að orkan fari á almennan markað til heimila landsins, til fyrirtækja landsins, til viðbótar við stórnotendur og orkufrekan iðnað.

Ég held að það liggi fyrir að við þurfum löggjöf vegna þess að almenningur mun ekki keppa í verði við stórnotendur í heimi þar sem vaxandi eftirspurn er eftir grænni orku. Það er ekkert samasemmerki á milli þess að aukin orkuframleiðsla leiði það af sér að þessir aðilar verði í fyrirrúmi. Við þurfum meðvitað að uppfylla samkeppnislög hér eins og annars staðar en það eru hvatar innan Evrópusambandsins, í reglugerðinni þar, í lagaumhverfinu þar, til að fara þessa leið. Það eru sterk rök fyrir niðurgreiðslu til köldu svæðanna okkar sérstaklega en þetta þarf hins vegar að fara í gegnum skattkerfið, svo að dæmi sé tekið. Ríkið hefur fullt leyfi og fullt erindi í að fara í það verkefni að tryggja orku til þessara svæða.

Það hefur svolítið verið í umræðunni, eftir að það komst í hámæli við hvaða aðstæður heimili, sveitarfélög á þessum köldu svæðum, búa, að Landsvirkjun þurfi að grípa inn í með öðrum samningum. Það er rétt að halda því til haga að ábyrgð Landsvirkjunar er mjög mikil í orkubúskap okkar en hún ber ekki ábyrgð á orkuöryggi heimila. Það eru aðrir aðilar sem gera það. Það erum við hér sem gerum það. Við þurfum að tryggja það og mig langaði að halda því til haga. Það þarf skýra pólitíska stefnumörkun um þetta mál og Alþingi þarf að taka betur utan um fólkið í landinu hvað þetta varðar. Þetta skiptir máli fyrir fólk og fyrirtæki á þessum svæðum, fyrir samfélagið, en þetta skiptir líka máli fyrir umræðuna hér um vernd og orkunýtingu landsvæða. Nýtingin á þeirri orku sem fyrir er er auðvitað gríðarlega mikilvægt innlegg í umræðu um hvað eigi að vernda og hvað eigi að nýta á öðrum landsvæðum.

Þegar við ræðum stöðu raforkumála almennt á Íslandi blasir við að fókusinn er á breytta tíma og orkuskiptin. Það er stóra viðfangsefnið núna. Við stöndum frammi fyrir rafbílavæðingu, rafvæðingu í samgöngum almennt, á landi, á sjó og í lofti. Þetta er allt á fullri ferð. Á meginlandi Evrópu mun þurfa vetni til að mæta orkuþörf þar í stað jarðefnaeldsneytis. Allir flokkar hér á landi hafa sammælst um orkustefnu til 2050 þar sem miðað er við að Ísland verði búið að losa sig við allt bensín og alla olíu það ár. Það er stór breyting. Við verjum tugum milljarða á ári í að kaupa slíkt eldsneyti núna og það jafngildir heildarframlögum ríkissjóðs til allra háskóla landsins, svo að við setjum þessa hluti í samhengi. Við erum ekki bara að tala um útlagðan kostnað, við erum að tala um gríðarlegan ávinning ef við náum þessu í gegn.

Þessi stefna um orkuskipti kallar á græna orku og um það snýst málið. Þá kemur kannski í stórum dráttum tvennt til: Hvernig getum við nýtt betur og á annan hátt þá orku sem við höfum núna? Hvernig og hve mikið getum við framleitt af nýrri orku? Við horfum líka fram á, af því að við erum líka með samfélag til að reka, að það er aukin eftirspurn utan frá vegna markmiða annarra þjóða um orkuskipti og vegna þeirrar staðreyndar að við búum við þá eftirsóknarverðu stöðu að geta framleitt græna orku. Einnig er um að ræða ásókn framleiðenda sem finna aukna eftirspurn eftir vöru sem framleidd er með grænni orku. Þetta er eitthvað sem við þurfum að taka til skoðunar. Auðvitað er um að ræða stórkostlegt tækifæri ef við höldum rétt á spilunum.

Þegar kemur að betri nýtingu á orkunni er staða dreifikerfisins undir eins og ég talaði um, en hægt er að gera ýmislegt annað til að nýta orkuna betur í hringrásarhagkerfinu. Stækkun á núverandi orkuverum er líka mikilvæg leið og þar liggur fyrir mál ráðherra. Ég held að það sé mjög mikilvægt skref og hefur kannski þá kosti, umfram margt annað sem hér er til umræðu, að við eigum að geta farið tiltölulega hratt í það. Það skiptir líka máli að við séum ekki að tapa enn fleiri árum í samstarf þeirra þriggja ágætu flokka sem hér ráða för. Þetta þarf allt að gerast samhliða. Við þurfum að vinna þetta og það er það sem ég hef helst áhyggjur af varðandi það hvernig málið er lagt upp hér af stjórnarflokkunum.

Þegar kemur að nýjum kostum þurfum við auðvitað að huga að öðrum möguleikum en vatnsaflsvirkjunum. Ég ætla að leyfa mér að segja að vatnsaflsvirkjunarskeiðinu á Íslandi, eins og við höfum þekkt það, fari senn að ljúka vegna þess að það eru einfaldlega fáir góðir kostir eftir nýir og andstaðan í samfélaginu er mikil. Við höfum aðra kosti til viðbótar til að nýta betur það sem fyrir er, við erum að tala um nýja orku, og þar er vindurinn ein raunhæfasta lausnin. Við getum náð mjög mikilli raforkuframleiðslu á vindmyllusvæðum sem skilur ekki eftir sig spor í neinni líkingu við vatnsaflsvirkjanirnar, kjósi menn að ganga til baka. Vindorkan hefur líka þá kosti að hún er gott mótvægi við stöðuna í vatnsbúskapnum og við vitum líka að tækniframfarir eru að gera þetta mun hraðvirkari orkuframleiðslukost.

Ég verð því að segja til viðbótar að það hefði verið mjög æskilegt að við værum að fara í þessa vinnu núna með rammann og stæðum styrkari fótum hvað varðar stefnumörkun í vindorkuframleiðslu en við gerum. Þar er enn hægt að tala um glötuð ár. En þetta eru verkefnin fram undan og mig langar hér aðeins í lokin — ég sé að ég er að renna út á tíma og einhverjir kaflar eru ósagðir en þeir munu komast til skila einhvern tímann — að líta aðeins á kostinn við alla þessa töf. Kosturinn er sá að flestir flokkar eru nú komnir nær í stefnu sinni og sýn á málefnið en þeir voru fyrir einhverjum árum.

Við í Viðreisn höfum mótað stefnu sem felur í sér að loftslagsframlag íslenskrar orku felist í sjálfbærri og ábyrgri nýtingu orkulinda. Mig langar til að nefna fjóra punkta í þeirri stefnu og ég efast um að við því séu miklar mótbárur, en mér finnst þetta skipta máli sem innlegg í umræðuna vegna þess að þetta eru mál sem best væri að allir flokkar sammæltust um, þ.e. um þennan ramma.

Við höfum talið mikilvægt að lögð verði áhersla á að fullnýta þá raforku sem núverandi vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir geta framleitt með uppbyggingu og styrkingu flutningskerfisins, eins og ég hef nefnt, en að við bætum líka nýtinguna með snjallvæðingu og hagrænum notkunarhvötum, sem ég sakna svolítið að sjá og veit að hæstv. ráðherra er manna líklegastur í þessari ríkisstjórn til að hafa skilning á og vilja nýta sér. Það skiptir einfaldlega máli en við horfum líka á staðbundnari lausnir eins og smávirkjanir.

Annað atriðið sem við höfum verið að vinna með er að við teljum að sé þess þörf eigi að mæta aukinni raforkueftirspurn með nýrri orkuvinnslu þar sem sjálfbær nýting og lágmörkun umhverfisspors er höfð að leiðarljósi og sérstaklega verði litið til uppbyggingu vindorkugarða.

Þriðja atriðið sem við höfum verið að vinna með er að losun gróðurhúsalofttegunda frá jarðvarmavirkjunum verði takmörkuð með öllum tiltækum ráðum og kvaðir lagðar á framleiðendur orku úr háhitasvæðum um að binda lofttegundir í jörðu eða nýta hana til umhverfisvænnar framleiðslu. Við eigum tæknina, það er verið að vinna að þróun slíkrar tækni hér á landi, þannig að það er mjög mikilvægt að við missum ekki af lestinni þarna.

Í fjórða lagi leggjum við áherslu á að framleiðsla umhverfisvæns rafeldsneytis, t.d. vetnis og metans, verði efld og komi í stað mengandi jarðefnaeldsneytis hérlendis og mögulega erlendis vegna þess að það er gríðarlega vaxandi eftirspurn eftir vetni. Nágrannalönd okkar, sem að mörgu leyti búa við svipaðar aðstæður og við, en komast á engan hátt nálægt því að vera með jafn gott forskot og við í þessum efnum, eru farin af stað. Þar eru stjórnvöld farin að aðstoða fyrirtæki við að marka sér sess á þessum markaði og það er óbærilegt að hugsa til þess að við missum af lestinni. Þetta eru hlutir sem ég myndi vilja sjá rædda samhliða þessum ramma þannig að Ísland verði óháð innflutningi eldsneytis með hjálp innlendra orkugjafa og við getum síðan í framhaldinu markað spor okkar í heiminum með hugviti okkar og orku þegar svo ber undir.

Forseti. Tíminn er liðinn. Við eigum mikla vinnu fram undan. Mig langar aðeins að nefna eitt. Riddarinn hugumprúði Don Kíkóti barðist hetjulega við vindmyllur á sínum tíma. Ég vona að vinna okkar hér í þinginu verði árangursríkari og byggð á staðreyndum og sameiginlegri sýn á það hvar hagsmunir lands og þjóðar liggja í nútíð og framtíð. Þetta verður áskorun, en ég ætla að trúa því að þingið standi undir henni.