Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[17:08]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Þetta eru mjög áhugaverðir punktar sem hv. þingmaður kemur með og kannski innlegg í umræðuna um það hvernig við getum tryggt þetta. Mér hefur þótt áhugavert í umræðunni allri um gallana í dreifikerfinu okkar og þessi ótryggu svæði — Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri hefur talað um að skýr auðlindastefna væri mikilvægt innlegg. Auðlindastefna getur haft margvíslega merkingu en hér er eiginlega átt við að við skýrum hvernig fólkið okkar, almenningur, á að njóta góðs af auðlindum okkar. Og hvernig orkuframleiðsla okkar, sem byggist jú á náttúruauðlindum, gagnast fólki þannig að jafnræðis sé gætt.

Við skulum hafa það alveg á hreinu að allt tal okkar um að byggja upp blómlegar byggðir víðs vegar um land, þar sem er sterkt atvinnulíf sem laðar að fólk, er bara hjómið eitt ef við tryggjum ekki þessi mál. Það sér hver maður. Í fyrsta lagi þarf að tryggja að fólk sitji við sama borð og aðrir íbúar þessa lands og síðan að þessi svæði séu í stakk búin til þess að taka þátt í orkuskiptum eins og við. Það gefur augaleið.

Auðlindastefna sem er unnin með þetta að markmiði væri stórt skref í rétta átt. Inn í slíka stefnu kæmi þá væntanlega líka einhvers konar sýn á það hvernig við sjáum fyrir okkur að sveitarfélög njóti fjárhagslegs ágóða af virkjunum, af hvaða toga sem þær virkjanir eru. Þetta er viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir. Það er mjög brýnt að við förum að beina sjónum í alvöru í þessa átt vegna þess að við erum þegar komin í þá stöðu að það er að myndast mjög mikil eftirspurn að utan og miklar líkur á því að við bregðumst við freistingum þar, af því að þær eru til staðar, áður en þessi stefna verður skýr.