Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[17:11]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson ræðuna. Nú vorum við, ég og hv. þingmaður, saman í umhverfis- og samgöngunefnd á liðnu kjörtímabili og ég gagnrýndi í ræðu minni fyrr í dag hversu seint þetta frumvarp kom fram þá, sem bar öll merki þess að það væri ekki vilji ráðherrans að klára málið. Nú koma fram sjónarmið um fyrirvara samstarfsflokka þess ráðherra sem leggur málið fram, og aftur fagna ég því hversu snemma það kemur fram núna. Ég veitti því athygli undir lok ræðunnar að þá var bjartsýnistónn hjá hv. þingmanni, hún vonaðist til þess að þingið réði við verkefnið, að klára málið. Það hefur töluvert verið rætt um þá nálgun að færa virkjunarkosti úr nýtingarflokki, og eftir atvikum verndarflokki, í biðflokk. Hvernig slá þær hugmyndir Framsóknarflokksins hv. þingmann? Og hvað teldi þingmaðurinn líklegast, ef eitthvað, til að tryggja þannig sátt að málið klárist á þessu þingi þannig að við getum farið að taka til hendinni við rammaáætlun 4 í stað þess að vera áfram föst í þessum hjólförum og mögulega með dautt fyrirkomulag rammaáætlunar ef okkur mistekst þetta núna?