Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[17:17]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég þakka þessar spurningar og vangaveltur. Þetta er nefnilega mikilvægt. Ef við tökum fjögur tengd mál sem dæmi, tökum stefnu í vindorkumálum, tökum raflínumálið og tökum dreifikerfið og tökum stækkun núverandi virkjana — upp fyrir 10 MW, var það ekki? (Gripið fram í.) Já, áður var markið 10. Alla vega, þetta eru allt þættir í þessu. Niðurstaða þessara mála hefur að mínu mati áhrif á hvernig umræðan um rammann þróast. Munum við keyra upp alveg gríðarlega umræðu, sterka, keyrða áfram af hagsmunaaðilum um að hér þurfi að virkja meira af því það skorti orku, eða munum við fara í hina áttina án þess að vera með — af því að þetta síðasta mál sem ég nefndi er það eina sem hefur komið fram, hin eru óunnin. Ég á erfitt með að sjá myndina og ég myndi vilja, í fullkomnum heimi, meira að segja bara í okkar raunheimi, sjá rammann unninn ofan á þessa stefnu svolítið, a.m.k. ofan á það að við værum búin að ræða þetta og ná einhverri sýn á hvernig þetta væri. Ég átta mig á því að það er rammi 3, 4 og 5 og kannski verðum við að ræða ramma og ákveða á hverju einasta ári næsta kjörtímabilið og kannski er það hugmyndin, ég bara veit það ekki og það truflar mig. En ef það er þá finnst mér þetta allt að því — nei, ég ætla ekki að nota orðið tímasóun en mér finnst skrýtið að vera að ræða þetta núna án þess að þessi sýn sé uppi. Vindorkan fær örpláss í þessum ramma, eðli málsins vegna, við erum ekki búin að ákveða hvernig við ætlum að hafa þetta, við vitum það ekki. Við erum ekki búin að ræða það hérna. Það er eiginlega svarið, ég hefði viljað sjá þetta unnið þannig. Oft er skortur á tíma ástæða þess að við erum í svipuðum sporum og við stöndum í hér en það er sannarlega ekki málið núna.