Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[18:04]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara að síðustu orðunum: Ég hef nú einhverja þingreynslu og hef m.a. verið formaður í umhverfisnefnd og í mörgum þingnefndum, í stjórnarandstöðu og fleira. Ef menn geta ekki klárað málið á þessum tíma út af tímaleysi þá gera menn nú ekki mikið, bara með fullri virðingu. Ég er búinn að vera hérna síðan 2002 og gef ekkert fyrir þau rök að það sé ekki nægur tími. Ég gaf þau rök og ég fékk gagnrýni fyrir, um dagsetninguna, þetta átti að koma 31. mars, að það væru bara mjög miklar líkur á að ég myndi svíkja það — sem ég og gerði. En í þessu máli sérstaklega þá liggja gríðarlega miklar upplýsingar fyrir og það er ekkert mál fyrir hv. þingmenn, ég veit það, að kynna sér málin hratt og vel og setja sig inn í þau. Ég setti fyrir löngu síðan grænbókina af stað til að hjálpa m.a. í þessu og Orkustofnun er á fleygiferð í því að koma með upplýsingar bæði í grænbókina og eðlilega til þingmanna og ráðuneytis. Við munum gera allt hvað við getum til að koma því áleiðis.

En bara svo að ég klári það sem hv. þingmaður talaði um, mikilvægi orkuskipta efnahagslega, þá er þetta ekki bara efnahagslegt mál. Þetta er líka þjóðaröryggismál. Þetta er líka umhverfismál. Hver er ástæðan fyrir því að menn eru alltaf að tala um hvað við búum til hlutfallslega mikið af orku, af hverju er það? Það er vegna þess að við erum hér með græna orku og það er mjög æskilegt að vera í framleiðslu með grænni orku. Þannig að ef menn eru að tala um loftslagsmálin í alvöru og eru að tala um heiminn og að við eigum að gera eitthvað í því, þá erum við að gera gott með því að framleiða hér á Íslandi. Ef við færðum framleiðslu sem er á Íslandi eitthvað annað þá er það ekki gott fyrir loftslagið, svo mikið er víst. Það er algjörlega ljóst. Ég veit ekki til að það sé neinn staður — vonandi eru margir að komast á sama stað og við og það er alveg til umhverfisvæn orkuvinnsla annars staðar (Forseti hringir.) en það að færa framleiðsluna annað, frá Íslandi, það gerum við ekki út af loftslagsmálum.