Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 38. fundur,  21. feb. 2022.

sérhæfð búsetuúrræði fyrir börn.

[15:43]
Horfa

Eva Dögg Davíðsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Vandi barna sem þurfa á sérhæfðum búsetuúrræðum að halda er afar mikill og erfiður. Samkvæmt skýrslu frá barnaverndarnefndum höfuðborgarsvæðisins, sem kom út í fyrra, eru 33 börn skilgreind með fjölþættan vanda vegna þroskaskerðingar, fötlunar, vanrækslu, tengslavanda, einhverfu, neyslu, beitingu ofbeldis eða annarra samverkandi þátta. Þessi börn þarfnast stuðnings og gæslu í öruggu umhverfi og þurfa fjölþætta þjónustu utan heimilis. Þau þarfnast alla jafna umönnunar tveggja til þriggja starfsmanna allan sólarhringinn allan ársins hring. Þessi börn lentu að mörgu leyti á gráu svæði við flutning á málaflokki þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga árið 2011. Þau hafa upplifað niðurskurð í þjónustuúrræðum af hálfu ríkisins á síðustu árum og mæta oft lokuðum dyrum í kerfinu.

Og hver fyllir í þetta tómarúm í þjónustu við börn með fjölþættan vanda? Jú, einkareknar stofnanir hafa í auknum mæli stigið inn og boðið sveitarfélögum þjónustu við þennan viðkvæma hóp. Að þessum stofnunum ólöstuðum, því að vissulega að vinna þær þarft og mikilvægt starf, er verðmiðinn gríðarlega hár. Kostnaður á hvert barn getur hlaupið á tugum milljóna króna á ársgrundvelli og allt upp í 150 milljónir. Þetta er augljóslega þungur baggi að bera fyrir sveitarfélögin sem borga brúsann að mestu leyti. Í fyrrnefndri skýrslu er m.a. mælt með, með leyfi forseta, að bæði ríki og sveitarfélög taki þátt í uppbyggingu úrræða þar sem skýr og vel skilgreind kostnaðarskipting liggi fyrir og fjölbreytt samsetning þjónustu fyrir börn með fjölþættan vanda verði tryggð.

Því spyr ég hæstv. mennta- og barnamálaráðherra um tvennt. Annars vegar: Hefur verið mörkuð skýr stefna hins opinbera um hvernig byggja skuli fjölbreytt úrræði á ólíkum stigum til að mæta börnum með fjölþættan vanda? Og í öðru lagi: Hefur hæstv. ráðherra einhverjar áætlanir um hversu mikið fjármagn mun þurfa af hálfu ríkisins til að tryggja viðunandi þjónustu fyrir þennan viðkvæma hóp?