Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[14:34]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, veiðistjórn sandkola og hryggleysingja. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Hérna hafa líka verið forvitnilegar fyrirspurnir og andsvör sem snúa kannski mikið frekar að kvótakerfinu í heild sinni sem mér finnst eðlilegt að sé rætt. Það er svolítið öðruvísi að ræða um t.d. kvótasetningu á makríl sem kemur hérna syndandi inn í landhelgina sem nýr stofn eða stofn sem sjómenn og útgerðarmenn hafa eytt löngum tíma í, miklum peningum og lent í alls konar brasi við að finna. Það tók síðan langan tíma í þessu tilfelli að búa hann til útflutnings og skapa markaði í Kína þannig að það er til líka frumkvöðlaréttur og frumkvöðlakvóti. Um það var nú deilt þegar makríllinn var hlutdeildarsettur á sínum tíma og er útgerðin enn þá í málaferlum við ríkissjóð út af því. En þrátt fyrir að hlutdeildarsetning sé umdeild þá er þessi hlutdeildarsetning sérstaklega vel heppnuð í ljósi sögunnar. Á blómaskeiði sæbjúgnanna var veltan upp undir 2 milljarðar og þá starfaði fjöldi manns bæði við veiðar og vinnslu. Aflabrögðin í sæbjúgnaveiðum á Íslandi hafa í raun birst á svipaðan hátt og annars staðar í heiminum. Þau byrja með mjög mikilli veiði og síðan dregur ótrúlega skjótt úr veiðinni og það gerðist hér líka þegar var búið að virkja flest veiðisvæðin. Það hefur komið fram að u.þ.b. 6.000 tonn voru veidd þegar mest var og nú er búið að skera það niður í rúmlega 2.000 tonn.

Það sem hefur gerst er að þegar útgerðarmennirnir sjálfir og sjómennirnir sáu það að það voru ólympískar veiðar á sæbjúgum sem höfðu það í för með sér að heildarkvótinn var veiddur upp á örskömmum tíma og það sem átti að vera heilsársvinnsla og -störf urðu hlutastörf nokkrar vikur á ári og markaðurinn skrapp saman og tekjurnar sömuleiðis, þá voru það útgerðaraðilar sjálfir sem tóku ákvörðun sín á milli um að skipta veiðunum niður. Þannig unnu þeir sjálfir, tóku fram fyrir hendur okkar í þinginu og skiptu á sig veiðisvæðum og heimildum til þess að aflabrögðin og vinnslan myndu haldast í hendur og markaðirnir myndu lifa og gefa eins hátt verð og mögulegt væri. Þetta var verulega athyglisvert samstarf sjómanna og útgerða, að skipuleggja sjálfir veiðarnar til að koma í veg fyrir ólympískar veiðar. Þetta frumvarp kallast mjög vel á við það sem sjómennirnir hafa sjálfir óskað eftir.

Síðan hefur líka komið hérna fram að Hafró hafi gefið ráðgjöf um veiðar á sæbjúgum. Ég er alveg sannfærður um að Hafrannsóknastofnun hefur fengið allt of lítinn pening til að sinna þeim rannsóknum og hefur nú kannski byggt sínar skoðanir á því, að ég hygg — ég man eftir samtölum sem ég átti við starfsmenn þar — og hefur litið til þess hverju rannsóknir annars staðar í heiminum hafa skilað og tekið svolítið mið af þeim og það er ekki óeðlilegt. Á sama tíma og við erum að tala um að náttúran njóti vafans þá hef ég líka verið þeirrar skoðunar, af því að það er nú háloðnuvertíð núna þó að bátarnir liggi allir í vari hérna undir Reykjanesi í augnablikinu, að veiðar á loðnu í troll séu ekki það að láta náttúruna njóta vafans. Við heyrum nú hvað Norðmennirnir eru æfir yfir því að fá ekki að veiða í troll. Það er vegna þess að þeir náðu engum árangri af því að loðna er fyrst og fremst nótafiskur og þannig veiddum við hana lengst framan af. En þetta var auðvitað útúrdúr.

Ég held að ráðherrann sé hér með gott frumvarp. Þegar við ræddum þetta í fyrra var grásleppan inni, hún er ekki inni núna. Það er mikill ágreiningur um hana þannig að hún er tekin út. Ég held að svæðaskiptingin og kvótasetning á svæðin sé bara mjög eðlileg niðurstaða í ljósi þess hvers konar veiðar þetta eru. Þær eru á mjög takmörkuðum svæðum sem gefa mjög takmarkað og mismunandi af sér og ég held að á meðan við erum að fóta okkur í þessum veiðum þá sé það bara afskaplega gott að fara þessa leið. Svæðisbundin úthlutun sé því ásættanleg og muni verða til þess að vernda stofninn enn frekar og gera hann sterkari og veiðar og vinnsla geti vaxið og dafnað og við náum innan tíðar að skapa heilsársstörf bæði á sjó og landi.

Hér hefur verið rætt um framsalið og komið þar inn á Verbúðina, sjónvarpsþættina sem voru nú bara með ágæt skilaboð að mörgu leyti þó að ég hafi gagnrýnt ákveðna hluti þar og ætla ekki að endurtaka það hér. En þættirnir hafa vakið þessa umræðu og spurningar um framsal veiðiheimilda sem við erum alltaf að tala um hér — eða við erum ekki alltaf að tala um það nema kannski hérna á bak við. Við tölum kannski of lítið um það hérna í þinginu, mjög mikið feimnismál. En af því að við erum alltaf að reyna að finna leiðir til að skapa meiri sátt um þetta kerfi og það er ekki alveg auðvelt að skapa sátt um þetta kerfi þá væri kannski eðlilegt í ljósi þeirrar sögu að skoða þetta mál aðeins. Hér er nýbúið að úthluta makríl árið 2019. Mér er ekki alveg kunnugt um það hversu mikið af þeim veiðiheimildum sem var úthlutað hefur síðan verið selt á almennum markaði á milli útgerðanna. Ég var að reyna að afla upplýsinga um það en því miður náði það ekki inn í hús áður en ég fór í ræðupúltið. En ég man að þegar við hlutdeildarsettum löngu og blálöngu á sínum tíma þá voru einhver dæmi um það, sem ég þekki, þar sem úthlutaður afli var seldur bara nánast á sama degi og honum var úthlutað. Það er auðvitað ekki hugsun löggjafans að slíkt sé mögulegt. Ég held að það hafi aldrei verið hugsunin hjá þeim sem voru sammála því að framsal ætti að vera heimilt, þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þá verið á móti því, eins og kom fram í Verbúðinni. Ég held að það væri alveg þess virði þegar þetta mál fer til atvinnuveganefndar, ef við horfum til þess að við þurfum að skapa meiri sátt um þetta kerfi og við þurfum að fara að taka fyrstu skrefin í því hér í þessum sal, ekki úti í bæ heldur hér inni. Ég tel eðlilegt að þar verði rætt að takmarka t.d. framsal á úthlutuðum afla í tiltekinn tíma, kannski fimm ár, og innan þeirra tímamarka mætti eingöngu skiptast á aflaheimildum en ekki leigja gegn peningum eða selja aflaheimildir, vegna þess að þeir sem fá aflaheimildir og ætla að selja þær innan nokkurra daga eða stutts tíma hafa nú lítið við þær að gera annað en að við séum að búa til fjármagn fyrir þá. Ég held að það væri ágætissnúningur.

Ég beini því til hv. atvinnuveganefndar að skoða hvort það væri rétt að gera þetta í þessu dæmi hér, hér er hryggleysingi sem við erum að kvótasetja og það er allt sem mælir með því að þannig verði veiðum og vinnslu á þessum fiski stjórnað af því að það hafa sjómennirnir sjálfir og vinnslan og allir lagt grunninn að. Þess vegna legg ég til að það verði skoðað til að auka sátt.