Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[14:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að hlusta á ræðu hv. þingmanns og vil þakka fyrir þá ræðu og fagna um leið ákveðnum tóni sem kemur fram hjá hv. þingmanni um að stíga þurfi skref til þess að ná meiri sátt, meiri sanngirni í sjávarútvegi. Ég vil hins vegar draga fram að þessi ríkisstjórn hefur haft ótal tækifæri til þess einmitt að stíga skref í átt að sátt. Ákveðnar málamiðlanir hafa verið lagðar hér fram og ég vil nefna dæmi. Auðlindaákvæðið sem rætt var um í stjórnarskrá, tillaga frá forsætisráðherra, margt ágætt í því nema þar vantaði grundvallaratriðið um að tímabinda samninga. Viðreisn var tilbúin til að samþykkja það ákvæði eins og það var lagt fram nema flokkurinn vildi setja inn eitt orð: tímabinda samninga. Það fékkst ekki í gegn.

Það sama gildir um það þegar við vorum að ræða breytingar á veiðigjöldunum. Þá lögðum við í Viðreisn fram tillögu til málamiðlunar, til sátta, um að hrófla ekki við veiðigjöldunum. Allir vita að við viljum markaðsleiðina en við sögðum: Gott og vel, við ætlum ekki að hrófla við þeim hluta frumvarpsins. En við skulum tímabinda samninga, stíga það skref sem til að mynda Einar Kristinn Guðfinnsson, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði til og studdi í svonefndri Guðbjartsnefnd sem skilaði af sér 2012 frekar en 2013, en Vinstri græn hlupu frá þeirri sáttargjörð. Það hafa einmitt borist tónar, m.a. frá Sjálfstæðisflokknum, í þá veru að það sé hægt að stíga þessi skref en þegar til stykkisins kemur er alltaf ýtt á rauða takkann hérna í salnum. Þess vegna vil ég hvetja hv. þingmann (Forseti hringir.) til að fylgja þessu eftir í atvinnuveganefnd og mér þætti vænt um ef hann gæti lýst því (Forseti hringir.) aðeins betur hvaða pælingar hann vill setja hér fram.