Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[14:58]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór aðeins yfir þessi sjónarmið hér í fyrri samskiptum undir umræðunni og skýri í raun og veru þá stöðu sem við erum í núna að því er varðar þetta tiltekna frumvarp með þeirri staðreynd að það var ekki síst mitt pólitíska mat að það færi betur á því að ljúka við þann hluta frumvarpsins sem ekki sætti svo miklum ágreiningi sem var um þann þátt sem laut að grásleppunni. Sú stjórn sem er núna fyrir hendi er sú að það er takmarkaður fjöldi leyfa sem er einhvers konar kvótasetning þó að hún heiti eitthvað annað. Það kerfi er auðvitað vandasamt og það er augljóslega ekki sátt um þá leið þannig að ég hef gert mér far um að hlusta eftir sjónarmiðum, ekki síst hjá þeim sem eru í þessum veiðum, stunda þessar veiðar. Ég hef hitt grásleppusjómenn sem stunda þessar veiðar við Breiðafjörð og er með á minni dagskrá að hitta fleiri. Ég hef ekki sett frumvarp af þessu tagi á mína þingmálaskrá á þessu þingi en tel að við eigum að halda þessari umræðu hér vakandi í ljósi þess að um þessi mál þarf að búa með einhverjum þeim hætti að að það sé fullnægjandi, bæði fyrir stofninn sem slíkan og þau sem stunda þessar veiðar.