Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða og lög um veiðigjald.

350. mál
[16:24]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu þessa mikilvæga frumvarps. Hér er um nýja atvinnugrein að ræða, eða ekki alveg nýja, öflun sjávarfangs er stunduð við þörungaverksmiðjuna á Reykhólum. Mig langar að spyrja ráðherrann af hverju þetta frumvarp og reglur um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni séu í lögum um stjórn fiskveiða. Þetta er reyndar líka í breytingu á lögum um veiðigjald. Ég tel að þetta eigi ekki heima í lögum um stjórn fiskveiða. Ástæðan fyrir því er sú, eins og kemur fram í 4. gr. frumvarpsins, að um heimild til þangsláttar í fjöru og netlögum sjávarjarðar fer samkvæmt samkomulagi við ábúanda eða landeiganda. Ég veit ekki alveg hversu mikið af öflun er fyrir utan netlög og hvort ekki væri rétt að þetta væri í sérlögum og áherslan væri þá á samkomulag við landeigendur. Þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir landeigendurna. Ég get tekið dæmi og líka sagt það að netlög er jú skilgreind sem 110 m frá stórstraumsfjöruborði í jarðalögum. Það er líka til ákvæði í Jónsbók, sem hefur aldrei verið tekið úr gildi af Alþingi Íslendinga, sem er óljósara og gengur lengra. Þannig að það mætti skoða það líka. En aðalatriðið er að að ég tel að þetta eigi ekki heima í þessum lögum, það eigi að vera sérlög. Það væri líka gott ef ráðherra gæti upplýst um það hversu mikið af öflun sjávarfangs er fyrir utan netlög. Ég get ekki annað en minnst á þjóðlendumálið og ég mun koma að því líka í ræðu á eftir. Síðasta svæðið sem óbyggðanefnd tekur fyrir er eyjar og sker. Þar eru þau ósköp þannig (Forseti hringir.) að landeigendur, eigendur eyja og skerja, þurfa að gera grein fyrir jörðum sínum.