Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða og lög um veiðigjald.

350. mál
[16:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vil hnykkja á. Ég er sammála því að ef við höldum rétt á málum og höldum rétt á spilunum eru gríðarleg sóknarfæri í þessum málum, hvort sem við erum að tala um þang og þara, klóþangið o.s.frv. En ég ítreka að við verðum einmitt að hafa í huga eignarrétt og réttindi landeigenda í þessu. Alveg eins og þau eru skýr innan netlaga þá vil ég um leið hnykkja á hver réttindi þjóðarinnar eru fyrir utan netlög, að hvaða réttindum við þurfum að gæta þar. Það er náttúrlega annað sem við höfum verið að takast á um í stóru myndinni.

Ég set líka alla fyrirvara og skil hæstv. ráðherra að fara þá leið að fella niður þessar 8,5 milljónir og vil þakka fyrir góðar útskýringar á því hvers vegna þetta verði undanskilið veiðigjaldi. Af því að þarna eru vafaatriði þá tel ég einmitt að vafaatriðin eigi að túlka landeigendum og þeim sem hafa yfir eignarréttinum að ráða í netlögunum, sem er alveg skýr samkvæmt Jónsbók og er líka skýlt af stjórnarskránni, í vil.

En ég vil brýna ráðherra til að halda áfram þessu samtali varðandi kræklingaræktina. Talandi um sóknarfæri í þangi og þara þá tel ég að sóknarfærin í kræklingaræktinni séu líka mikil. Það má kannski skoða það að ræktun á þara í sjó geti einmitt átt góða samleið með skelræktinni, ef vísindin leyfa það, bæði tæknilega og líffræðilega. Mínar upplýsingar eru örugglega þær sömu og ráðherra, að árleg heimsframleiðsla og markaður fyrir skel eru núna um 17 milljónir tonna. 90% af allri skel eru ræktuð. Ef við náum að rækta skel og höfum það í huga að fiskeldi er búið að fara mörgum sinnum á hausinn, alveg eins og gerðist í Noregi, en síðan náði það í gegn og (Forseti hringir.) ég held að þetta sé eitthvað sem við verðum að hafa ákveðna þolinmæði fyrir og búa til þannig umhverfi (Forseti hringir.) að það verði heppilegt eða hvetjandi til þess að skoða þessi mál og sóknarfæri betur.