Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða og lög um veiðigjald.

350. mál
[16:39]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er algjörlega sammála því sem kemur fram í máli hv. þingmanns að það eru mjög mikil sóknarfæri í skelræktinni. Ég held að ég megi til með að hvetja hv. atvinnuveganefnd til að kalla eftir upplýsingum frá frumkvöðlum í þessari grein og öðrum óhefðbundnum greinum nýtingar sjávarfangs því að víða er um að ræða mjög spennandi starfsemi þar sem sóknarfærin eru mikil. Það kann að vera rétt að huga sérstaklega að ramma og regluverki að því er varðar þá hvata eða þær hindranir sem þarna eru fyrir hendi. Ég treysti því að hv. atvinnuveganefnd fari vel yfir þau sjónarmið sem komu fram í umræðunni og ekki síður þær ábendingar sem komu frá hv. þingmanni að því er varðar þetta viðkvæma samspil. Ég held að það sé mikilvægt að þingið horfist líka í augu við þá ábyrgð sem við stöndum öll frammi fyrir, að við þurfum að tryggja að það verði viðunandi reglusetning um þessa atvinnugrein í lok árs þannig að það sé skýrt hvað tekur við þegar þessu umhverfi sem nú er við lýði sleppir.