Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða og lög um veiðigjald.

350. mál
[16:56]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir að leggja fram þetta frumvarp. Sem fyrsti varaformaður atvinnuveganefndar held ég að við, ég og hv. þm. Stefán Vagn Stefánsson formaður, hljótum að geta tekið þetta vel fyrir þar og rætt.

Það er mikilvægt að styðja vel við nýsköpun og stundum þarf að gera það með lagasetningu, t.d. tímabundinni lagasetningu, prófa sig áfram eins og var gert með þau lög sem renna út í lok ársins. Það þarf nefnilega að vera hægt að prófa hluti, það er ekki víst að allt gangi upp og þá er allt í lagi að koma hingað tveimur árum seinna og segja: Við gerðum þetta allt of flókið, við getum einfaldað. Flestar setningar í þessu frumvarpi fella burt regluverk sem við héldum að við þyrftum kannski að vera með fyrir tveimur árum en erum kannski búin að átta okkur á að við þurfum ekki. Við þurfum svona nýsköpun í lagagerð, þ.e. að vera tilbúin að prófa, finna hvað virkar og hvað virkar ekki.

En þegar kemur að þangi og þara hefur það svo sem verið nýtt hér á landi í langan tíma. Forfeður okkar borðuðu þetta og svo hefur þetta verið unnið bæði til notkunar í matvæli og eins sem áburður og þar að auki í dýrafóður. En ef horft er til þeirra nýsköpunarfyrirtækja sem frumvarpið talar um — það talar um a.m.k. 14 nýsköpunarfyrirtæki, ég fann nú fljótlega á vefnum 15 þannig að þau hljóta að vera að spretta upp eins og þörungagorkúlur — horfa þau á jafnvel enn meiri verðmætasköpun út úr þessu hráefni. Ég veit um eitt slíkt sem ég fékk tækifæri til að veita aðeins ráð, sem var að horfa á það hvernig hægt væri að nýta þörunga, ákveðnar tegundir þörunga, til að búa til lífrænt efni til að sleppa við að nota plast utan um matvæli. Þarna eru miklir möguleikar ef þetta gengur eftir. Það er nefnilega svona sem við þurfum stundum að hugsa, við þurfum að muna að þó að við séum búin að nota þetta kannski og gefa sem fóður í áratugi þá gæti þetta verið enn verðmætari hlutur ef við notum það einhvern veginn öðruvísi.

Það er mikilvægt að við gerum það á þann hátt að það sé hægt að prófa, það sé ekki of flókið. Ég man að einu sinni las ég fréttir frá Kenýa þar sem þeir höfðu fækkað skrefunum við að stofna fyrirtæki úr 123 í 12. Það var kannski með því að búa til frumvarp eins og þetta þar sem helmingurinn segir „fellur brott“. Það er nefnilega þannig að við þurfum að gera nýsköpun auðveldari. Við þurfum að passa okkur og eitt af því sem við sem sitjum í atvinnuveganefnd þurfum að gera er að skoða hvort það sé örugglega enn þá þannig að við séum ekki að flækja þetta um of. Á sama tíma þurfum við að sjálfsögðu líka að passa upp á að öll nýting á þessum auðlindum, þessum nýju auðlindum, sé á þann máta að umhverfið og lífríkið sé sátt. Ég held að við séum með þann þroska í dag að geta fundið leiðir til þess að tryggja það og vinna saman í því að opna tækifæri á því að nýta þær auðlindir sem eru hér í kring fyrir okkur öll.