Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[17:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get flutt þessa ræðu nokkrum sinnum ef hv. þingmaður trúir ekki á að efnahagslífið vaxi, að við getum ekki náð fram markmiðum okkar um þessar tekjur sem við ætlum að leggja til grundvallar. Hann nefnir réttilega þennan útreikning á raunvextinum. Raunvöxtur útgjalda hangir einfaldlega saman við þær spár sem við byggjum stefnuna á. Þá verður hv. þingmaður líka að viðurkenna að við höfum aukið útgjöld til flestra þessara málaflokka verulega á undanförnum árum og það er frá þeim stað sem við erum að leggja af stað. Ég vil bara að minna á það, virðulegi forseti, að í gegnum þessa kreppu höfum við ekki skorið niður ríkisútgjöld. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga þegar menn ætla að túlka framtíðina með þeim hætti að hér sé veikleiki út frá því að við höfum veikt tekjuhliðina. Svo er ekki, virðulegi forseti.