Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[17:41]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér í þessari umræðu er hv. þingmaður mjög upptekinn af fortíðinni en vill kannski síður tala um framtíðina og þau fyrirheit sem þessi fjármálastefna, þetta plagg, felur í sér. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvað nákvæmlega mun þetta útgjaldaaðhald;, raunvöxtur útgjalda á hverju ári upp á 0,65% á tímabilinu? 2023–2026, þýða fyrir opinbera velferðarþjónustu? Hvað mun þetta þýða t.d. fyrir börnin sem Framsókn háði kosningabaráttu sína í kringum, XB fyrir börn o.s.frv.? Ókei, við fengum þarna svör um vegaframkvæmdirnar. Það verður leyst með bókhaldsbrellum með einkaframkvæmd, nokkuð sem Vinstri græn voru voða skeptísk á í gamla daga. En hvað mun þetta þýða fyrir opinbera velferðarþjónustu og hvað mun þetta þýða fyrir opinbera fjárfestingu almennt, ekki bara samgönguframkvæmdir heldur opinbera fjárfestingu almennt?