Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[19:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við erum hér að fjalla um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta hafa bara verið ljómandi góðar og áhugaverðar umræður hér í dag, vil ég segja, og margt áhugavert og gott sem komið hefur fram. Auðvitað endurspeglast umræðan hér dálítið af því sem átt hefur sér stað í fjárlaganefnd og í sjálfu sér er ekkert sem kemur beinlínis á óvart í því samhengi.

Hv. þm. Haraldur Benediktsson fór hér ágætlega yfir nefndarálit okkar í meiri hluta nefndarinnar og helstu tölur í því. En mig langar líka aðeins til að fara örlítið yfir þessi mál. Ég ætla að byrja á því að segja að ég get alveg tekið undir það varðandi þá vinnu sem við erum að fara að hefja og ég hef rætt hér áður og í nefndinni varðandi framsetningu og annað slíkt á LOF-inu eða lögum um opinber fjármál. Það er eitt og annað sem við þurfum að bæta og sem við þurfum að segja við framkvæmdarvaldið að við viljum hafa framsetningu á með öðrum hætti. Það á jafnt við um stefnu sem fjárlög sem fjármálaáætlun. Þetta er allt undir í því samhengi. Ég hef svo sem ekki trú á því að við náum fram miklum breytingum akkúrat núna á þeirri önn hér sem fram undan er, því að það er ekki nema rétt um mánuður í framlagða fjármálaáætlun. En samt held ég að við eigum að reyna að koma einhverju áleiðis um það hvernig við myndum a.m.k. vilja létta á framsetningunni í fjármálaáætluninni.

Þessi stefna byggir á 4. gr. laga um opinber fjármál. Undirliggjandi markmið er að létta á skuldum ríkissjóðs til að vera viðbúin því að takast á við áföll sem sagt er að geti orðið tíðari en verið hefur í ljósi breytts veruleika. Þess vegna er það afar mikilvægt að við reynum að vinna okkur hægt og rólega út úr því. Og sem betur fer virðist allt í hagkerfinu stefna hraðar í betri átt en við bjuggumst við. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli. Ég ætla þó samt að segja það hér, og ég hef sagt það áður, að skuldahlutfallið, þ.e. þessi 7. gr. laga, sem ég var ekki hlynnt á sínum tíma þegar lögin voru sett, er eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur. Þetta eru ansi stíf viðmið og 30% skuldahlutfall er líka afar stíft viðmið, það sem undir er. En ég vil líka segja að þó að hér sé sett fram að við eigum að vera komin í sæmilegt jafnvægi 2026 þá held ég að við verðum að horfast í augu við það að ef eitthvað gerist á leiðinni á þessum árum þá þurfum við auðvitað að vera tilbúin til að endurskoða það og fara hægar í sakirnar í því að ná þeim markmiðum aftur. Það hlýtur alltaf að vera undir að við stöndum undir þeim kerfum sem við setjum upp og ef það þýðir að við þurfum að teygja aðeins á þessu þá eigum við að gera það.

Hér er verið að tala um að skuldirnar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eigi að vera í kringum 40,5% þetta ár, 2026, og fara lækkandi frá þeim tíma. En eins og ég segi þá held ég að við eigum alveg að vera meðvituð um að það getur eitthvað orðið til þess að við þurfum að endurskoða það. En vonandi nær hagkerfið sér hratt af stað þannig að við getum búist við betri stöðu jafnvel fyrr en hér er gert ráð fyrir.

Af því að hér hefur verið rætt um óvissubilið og mikið verið rætt um það hvort við eigum að láta gott gengi í kerfinu verða alltaf til þess að við aukum útgjöld — það held ég að eigi ekki endilega að vera og fjármálaráð hefur lagt til að svo sé ekki. Það er auðvitað sá freistnivandi sem hér hefur verið ræddur í því samhengi. En ég held að það sem við þurfum fyrst og fremst að velta fyrir okkur sé hvernig við getum þá náð þeim markmiðum sem við setjum okkur í stjórnarsáttmálanum innan þeirra marka sem við leggjum fram í þessari stefnu. Það er sannarlega vegna þessara vikmarka sem sett eru hér inn, þá er búinn til sveigjanleiki í fjármálaáætlunum þannig að við getum horft til þessara markmiða, bæði um að skuldahlutfallið lækki og að við getum nýtt þær til uppbyggingar í velferðarkerfum okkar. Það eru góðar horfur; uppgjörstölur síðasta árs hjá opinberum fyrirtækjum og annað slíkt og svo það sem við heyrum frá ferðaþjónustunni í dag gefur allt til kynna að þetta gerist hraðar en við gerum ráð fyrir hér með þessari stefnu, þrátt fyrir að við höfum verið að breyta henni örlítið, eins og kemur fram í tillögu meiri hlutans í lok nefndarálitsins þar sem við leggjum til örlitla hækkun á skuldaviðmiðinu.

En það er líka það sem mig langar að fara aðeins yfir, það er búið að fara vel yfir hagvöxtinn, verðbólguna og öll þessi viðmið sem rakin eru í nefndaráliti meiri hlutans og eru skiptar skoðanir á. Ég ætla ekki að teygja tímann og endurtaka það neitt sérstaklega mikið. Mig langar bara rétt að tala um þessa punkta sem við setjum hér inn, meiri hlutinn, varðandi álit fjármálaráðs þar sem við tökum undir eitt og annað sem þar kemur fram. Ég vil líka segja það hér að nefndin hefur fjallað um að við fáum fjármálaráð oftar að borðinu til okkar til þess að fylgja þessu eftir, þ.e. hvernig gengur á tímabili stefnu eða áætlana. Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir þingið að við tökum það samtal með reglubundnari hætti og oftar en gert hefur verið fram til þessa. Það er líka ákveðið aðhald fólgið í því af hálfu óháðra aðila þannig að það er ekki bara pólitíkin sem talar þegar kemur að því.

Ég get alveg tekið undir margt sem farið hefur verið yfir hér í dag um skýrleika, sérstaklega að við náum betur utan um hlutina með einhvers konar markmiðum og mælingu um það sem við erum hér að setja fram. En það er auðvitað ánægjulegt að fjármálaráð telur að sjálfbærni skulda hins opinbera sé ekki áhyggjuefni eins og sakir standa og að skuldahlutfallið verði áfram lágt. Ég tek líka undir það að sannarlega má segja að þessi lagarammi sem við erum að vinna eftir núna sé búinn að sanna gildi sitt þrátt fyrir ákveðna annmarka sem á honum eru og við stöndum frammi fyrir og höfum verið að ræða hér í dag og viljum kannski breyta.

Mig langar að segja varðandi það sem við höfum líka oft rætt þegar við erum að ræða fjármál hins opinbera, þ.e. um margs konar sviðsmyndir, að þær þurfi að verða ítarlegri en við höfum haft fram til þessa, að sannarlega hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið verið að bregðast við. Þeim sviðsmyndum hefur fjölgað og það eru fleiri undir núna en voru bara þegar ég byrjaði í fjárlaganefnd og fyrstu árin sem við vorum að innleiða þetta kerfi. En það skiptir gríðarlega miklu máli þegar við erum í sveiflukenndu hagkerfi eins og þessu að við höfum fleiri viðmið en bara eitt. Það hefur verið að gerast hægt og rólega.

Varðandi fjárfestingarnar, af því að þær hafa verið nefndar hérna, þá nefndi hv. þm. Kristrún Frostadóttir fyrst hina gullnu reglu sem Evrópusambandið er að skoða. Ég held að það sé eitthvað sem við eigum að velta fyrir okkur og að við eigum að taka alvarlegt samtal um það hvort þetta sé eitthvað sem er framkvæmanlegt og eins að fylgjast með umræðunni innan Evrópusambandsins um þessi mál. En mig langar samt aðeins að drepa á þessu varðandi fjárfestingarnar af því að það er jú alltaf forsendan sem hér er lögð til, þ.e. að langtímasjónarmið, arðsemi og forgangsröðun eigi að ráða för. Sannarlega þarf það að vera undir og ég ætla ekki að gera lítið úr því, en við þurfum samt líka að vera með opin augu fyrir því að sumar fjárfestingar, t.d. í samgöngumálum, eru ekki endilega fjárhagslega arðsamar en þær eru samfélagslega arðsamar. Mér finnst að það verði líka að hafa það undir þegar við erum að tala um fjárfestingu og arðsemi. Ég vildi velta þessu upp af því að það hefur ekki verið dregið hér fram. Við erum sannarlega með þessa innviðaskuld víða og þurfum að halda áfram og gera betur þar en verið hefur.

Hér hefur líka verið umræða um alls konar átök og ég get alveg fallist á það, hvort sem það heitir átök eða bara auknir fjármunir í einhver verkefni, að þeir aðilar sem eiga um að véla og framkvæma, eins og hér hefur verið rætt — það er afar óheppilegt að hafa ekki komið öllum þeim peningum í vinnu sem við erum þó búin að útdeila, hvort sem það er í vegaframkvæmdir eða húsnæðismál eða annað slíkt. Það er auðvitað afar óheppilegt því að alls staðar er þörfin til staðar. Það þurfum við að ræða á alvarlegum nótum, eins og komið var inn á áðan, við verðum horfum lengra fram í tímann til að undirbúa okkur, hvort heldur það er vegagerð, skipulagsmál eða annað slíkt, þar sem þarf mikinn undirbúning, af því að peningarnir fara ekki í vinnu þegar undirbúningurinn er ekki klár.

Það er það sem ég vildi helst drepa á hérna varðandi þessar fjárfestingar. Það segir líka hérna, og við tökum undir það, að við þurfum að gæta að því að fjárfestingarstigið lækki ekki af því að samdrátturinn getur auðvitað unnið gegn þessum vaxtarmöguleikum sem hér hafa verið ræddir í dag. Það sem er undirliggjandi í þessari gullnu reglu er að hagsveiflan kallar þá ekki á það að við drögum úr fjárfestingu og verði ekki í rauninni það stýritæki sem það hefur verið fram til þessa.

Við höfum rætt talsvert hér í dag, minni hluti og meiri hluti, um að opinber fjármál og peningastefnan starfi og gangi í takt og lög um opinber fjármál hafa sannarlega dregið það talsvert fram og náð þeim markmiðum sem þeim var ætlað hvað þetta samspil varðar. Vegna stöðu ríkissjóðs vorum við sem betur fer vel í stakk búin þegar heimsfaraldur skall á til að takast á við þetta og Seðlabankinn hefur líka gengið í takt með okkur með því að lækka stýrivexti og stutt við fjármálastefnuna, þannig að sannarlega má segja að þetta hafi náð fram að ganga.

En ég ætla bara að segja hér í restina að það er auðvitað margt undir, stór verkefni og áskoranir fram undan sem hér hefur verið farið yfir af mörgum hv. þingmönnum í dag. Hér hefur m.a. verið rætt um samspil fjármálastefnunnar og stjórnarsáttmálans og ég tel að við eigum að geta náð þeim markmiðum sem sett eru fram í stjórnarsáttmála. Hins vegar má auðvitað með sanni segja að kerfisbreytingar sem fram undan eru — og margt hefur verið gert nú þegar, við skulum ekki gleyma því, af því að því hefur verið haldið fram hér í dag að sáralítið eða ekkert hafi verið gert í velferðarkerfunum. Það er ekki rétt, það hefur afskaplega margt verið gert. En betur má ef duga skal. Tilfærslukerfi hafa auðvitað vaxið talsvert, bæði heilbrigðis- og almannatryggingakerfið. Svigrúmið sem er vegna þeirra bila sem við erum hér að leggja til þannig að raunvöxtur verði til, og þá er hægt að uppfylla að mínu mati markmið sáttmálans.

Ég held að við þurfum ekki að hafa svona miklar áhyggjur af því að stefnan verði sprungin um áramót vegna þess að kjarasamningar eru fram undan og annað slíkt. Það eru auðvitað ákveðin ráð til að bregðast við því. En sannarlega má segja, eins og verið hefur og við megum ekki gleyma því, að það voru gerðir góðir kjarasamningar og verkalýðsforystan var afskaplega sátt við þá. Og af því að hér hafa húsnæðismálin líka verið nefnd þá var auðvitað ákveðinn hópur stofnaður í tengslum við það. Sá hópur hefur verið endurvakinn til þess m.a. að undirbúa ferlið varðandi þær áskoranir sem fram undan eru og við stöndum frammi fyrir núna. Þá vil ég líka minna á það að við þurfum bæði að horfa til þess að styrkja leigumarkaðinn og byggja húsnæði fyrir alla.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég geri ráð fyrir því að ég fái hér andsvör. Mér heyrist það vera svo þannig að ég reyni eftir bestu getu að svara þeim.