Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[20:24]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá umræðu sem átt hefur sér stað hér um þá þingsályktunartillögu sem við ræðum hér sem varðar fjármálastefnu til 2026. Hér hafa nefndarmenn rætt sín á milli í fjárlaganefndinni. Áhugaverð umræða og gaman að hlusta á að fólk nálgast þessa hluti á misjafnan hátt, hvert úr sinni áttinni. Ég hef nú þann titil í fjárlaganefnd að vera áheyrnarfulltrúi. Ég má ekki samt bara hlusta, ég má líka segja mína skoðun, ég fæ tækifæri til þess að lýsa minni skoðun hér. Það eru nokkur atriði sem mér finnast athyglisverð og langar til að nefna, sem mér finnast skipta máli og vil vekja athygli á þegar verið er að fara yfir þetta.

Margt hefur verið sagt hér í dag og eitthvað sem ég verð þá bara að endurtaka, en ég ætla að reyna að halda mig við nokkur atriði sem mér finnast skipta máli núna á þessum tímapunkti.

Mig langar að byrja, með leyfi forseta, að lesa upp úr greinargerðinni í innganginum þar sem segir:

„Leiðarljós fjármálastefnunnar er að hækkun á skuldum hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu stöðvist á árinu 2026. Markmiðið með því er að standa vörð um fjárhagslegan viðnámsþrótt hins opinbera og getu stjórnvalda til þess að milda áhrif óvæntra efnahagsáfalla á heimili og fyrirtæki samhliða því sem staðinn verður vörður um almannaþjónustu og tilfærslukerfi. Jafnframt byggir það upp svigrúm til þess að mæta auknum útgjöldum vegna fyrirsjáanlegra lýðfræðibreytinga.“ Sem við þekkjum líka bara sem öldrun þjóðar.

Þegar maður horfir á þennan texta þá er margt og mikið þar sem skiptir máli, að þarna eigi að standa vörð um almannaþjónustu, styrkja tilfærslukerfin og stöðva skuldasöfnun. En þegar maður les það sem þarna kemur fram þá sér maður þess hvergi stað að verið sé að stöðva skuldasöfnun heldur þvert á móti. Skuldir aukast allan tímann á meðan þessi stefna er í gangi. Við fengum nú inn í nefndina umsagnaraðila um þessa fjármálastefnu og þar á meðal fjárhagsráð, sem er nú sá aðili sem á að hafa eftirlit með því að eftir fjármálareglum sé farið og eftir lögum um opinber fjármál og maður vill taka mark á því sem þar er sagt og sett á borð.

Ég hnýt um nokkur atriði í því sem fjárhagsráð nefnir. Þeir tala um festu í stefnumörkun. Þar er sagt, með leyfi forseta:

„Lögum um opinber fjármál er ætlað að búa þannig um hnútana að til verði formföst umgjörð um stefnumörkun í opinberum fjármálum sem m.a. stuðli að festu.“

Síðan segja þeir: Freistnivandi í opinberum fjölmiðlum. Of stutt horft til framtíðar og áhrif hagsmunagæslu. Þetta finnst mér vera mjög merkilegt að lesa. Síðan segja þeir, af því að það er búið að færa þetta til ársins 2026, að í þessari fjármálastefnu sé fyrri stefnumiðum um afkomubætandi ráðstafanir og stöðvum vaxtar skuldahlutfalls 2025 breytt. Vandanum er slegið á frest og út fyrir kjörtímabil ríkisstjórnarinnar. Það er merkilegt að lesa þetta. Þarna er fjárhagsáð að segja að þessi ríkisstjórn taki ekkert á málunum, hún ætli að eftirláta næstu ríkisstjórn að gera það. Ég get ekki lesið þetta neitt öðruvísi en að þeir horfi þannig á málin.

Síðan segja þeir, undir liðnum um hringrás stefnumörkunar, að það skorti samhljóm fjármálastefnunnar og stjórnarsáttmála. Þetta ber að taka alvarlega. Ef sú fjármálastefna sem á að reka hér næstu fjögur árin er ekki í takt við þann stjórnarsáttmála sem meiri hlutinn undirgekkst núna í haust þá er okkur vandi á ferðum.

Síðan finnst mér merkilegt að lesa kafla um þróun eigna þar sem sagt er, með leyfi forseta, að stefnumið um skuldir megi ekki valda því að eignahlið efnahagsreiknings hins opinbera rýrni. Hvað á ráðið við með þessu? Eru þeir að segja að við eigum ekki að selja Íslandsbanka eða hvað er ráðið að segja? Þeir eru að vara við því að nýta eignir ríkisins í að greiða niður skuldir, það verði gert með einhverjum öðrum hætti. En talað er um það í þessari fjármálastefnu að það eigi t.d. að nýta sölu á Íslandsbanka til að greiða niður skuldir.

Virðulegur forseti. Mig langar að nefna hér sérstaklega, af því að það var nefnt í ræðu hv. þingmanns og formanns fjárlaganefndar hér á undan, að það þyrfti að vera meira samráð milli fjárlaganefndar og fjárhagsráðs. Þá langar mig að fara aðeins yfir stöðu sveitarfélaga sem þarf að ræða samhliða því sem er að gerast, því að þrátt fyrir að þetta sé sitt hvort stjórnsýslustigið þá eru þau háð hvort öðru, vinna saman og veita oftast og yfirleitt sömu þjónustu. Þannig að það skiptir máli að samráð sé á milli sveitarfélaga og ríkisins um með hvaða hætti eigi að afla tekna og síðan hver eigi að veita þjónustuna og fyrir hvaða fjármuni.

Þegar maður fer inn á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga þá finnur maður þar merkilegar upplýsingar, m.a. þær að laun eru að aukast og hafa verið að aukast sem hluti af rekstrargjöldum sveitarfélaganna, úr því að vera u.þ.b. 50% í það að vera rúmlega 58% samkvæmt útkomuspá fyrir 2021. Þetta mun auðvitað gera það að verkum að svigrúm sveitarfélaga minnkar verulega til að veita aðra þjónustu sem þeim er ætlað að veita, og fara í fjárfestingar sem þarf að ráðast í. Þarna kemur einnig fram að það þurfi að fara í fjárfestingarverkefni á árinu fyrir 55 milljarða, en á móti á að greiða upp afborganir fyrir 19 milljarða, þannig að nettófjárfestingin er þá 36 milljarðar plús áætlaður halli á sveitarfélögunum, sem er 6 milljarðar. Sveitarfélögin þurfa þá með einhverjum hætti að fjármagna 40 milljarða og það er ekki tekið upp af götunni þegar skuldahlutfallið er orðið 117% að meðaltali hjá sveitarfélögunum.

Það eru mörg atriði sem vert er að nefna um stöðu sveitarfélaganna. Við fundum það í kjördæmavikunni þegar við hittum sveitarstjórnarfólk víðs vegar að mörg þeirra eru uggandi yfir stöðunni. Við heyrum nefnda fábreytta og smáa tekjustofna. En á sama tíma fjölgar verkefnum. Það er talað um málaflokk fatlaðs fólks og hér hefur verið nefnt að þar vanti 9 milljarða. Það hefur verið talað um kostnað vegna barna með sértækan vanda. Ég veit ekki kostnaðinn við það. Það er verið að breyta lagaumhverfi um sorp og meðhöndlun þess. Þetta mun kosta sveitarfélög eitthvað. Breyttar áherslur í fráveitumálum. Flest sveitarfélög eru bara með allt niður um sig þegar kemur að fráveitumálum. Þetta er ekki kosningamál og ekki vinsælt til að fara með í kosningar og eyða mörg hundruð milljónum.

Síðan eru þessi farsældarfrumvörp sem ráðgerð eru og eiga að veita betri þjónustu en fjármögnunin á þeim er ekki til staðar. Þó að það hafi verið spýtt inn í þetta rúmum milljarði til að setja málið í gang þá liggur fjármögnun til framtíðar ekkert fyrir. Það á að auka þjónustu en það að auka þjónusta kostar og hver á að borga það? Eiga sveitarfélögin að gera það? Fyrir hvaða peninga? Á sama tíma eru allir að rífast yfir því að fasteignagjöldin í sveitarfélögunum séu að hækka. Þannig að það þarf þá að finna sveitarfélögunum einhverja aðra tekjustofna til þess að vinna með.

Síðan má lesa þarna að sveitarfélögin þurfa að gera núna breytingar á fjárhagsáætlunum með viðauka vegna atriða sem er íþyngjandi og búið er að leggja á sveitarfélögin, annars vegar um að sveitarfélög verði að taka inn í ársreikninga hlut sinn í byggðasamlögum. Það getur skipt máli um stöðu sveitarfélaganna. Og hins vegar, sem verður verulega íþyngjandi fyrir mörg sveitarfélög, að fjármálaráðherra staðfesti fyrir jól í fyrra tillögur frá Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga um lífslíkur sem hafa veruleg áhrif á mat á lífeyrisskuldbindingum. Þetta mun hækka skuldbindingar sveitarfélaganna verulega hjá mörgum þeirra um hundruð milljarða. Þetta mun auðvitað hafa áhrif á rekstrarafgang sveitarfélaganna, ef einhver verður.

Það vekur athygli mína í þessari fjármálastefnu að það er eins og nefndarmenn, eða kannski bara fjármálaráðuneytið og fjármálaráðherra, séu mjög uppteknir af því hvað gerist í kjarasamningum, mjög uppteknir. Mig langar að nefna hérna atriði, með leyfi forseta, þar sem segir:

„Laun hér á landi hafa kerfisbundið hækkað umfram það svigrúm sem leiðir af verðbólgu og framleiðnivexti. Afleiðing þess er að hér á landi er hlutfall launa í verðmætasköpun nú með því hæsta sem þekkist í samanburðarríkjum og lífskjör og jöfnuður með því mesta sem gerist.“

Þetta eru auðvitað stórar og miklar fullyrðingar. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur nú komið hér ítrekað í pontu og sagt að kaupmáttur á Íslandi hafi vaxið svo mikið. En sá sem er með 700.000 kr. í laun og fékk 25.000 kr. hækkun hefur ekki aukið kaupmátt sinn umfram verðbólgu þegar verðbólga er 5,7%. Það liggur bara fyrir. Því að 25.000 kallinn er 3,5%. Jú, kannski sá sem er með 300.000 kall, hann náði að auka kaupmátt sinn en ekki sá sem var með meðaltekjur. Kaupmáttur hefur rýrnað. Þannig að þegar talað er um að launahlutfall sé með því hæsta sem gerist, borið saman við OECD, þá er náttúrlega verið að taka inn lönd eins og Ungverjaland, Slóvakíu, Tékkland, Pólland, Spán, þar sem kaupmáttur launa hefur ekki verið mikill. Það er nefnt að hlutfallið sé 60% á Íslandi. Í Finnlandi er það 54%, í Svíþjóð vera 55%, í Noregi er það 58%. Í Sviss er það 61% og í Þýskalandi 61%, þannig að við erum bara á pari við það sem er að gerast í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þannig er það bara, hvorki meira né minna. Við stöndumst ágætlega samanburð við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við af því að við viljum vera velferðarsamfélag.

Það er sýknt og heilagt talað um að kjarasamningar verði að vera innan stöðugleikamarka. Ég spyr: Hver eru þau? Hver eru þessi stöðugleikamörk sem íslenskt launafólk á að semja innan? Stundum er verðbólga 2%, stundum eru hún 20%. Hver er stöðugleikinn? Tilfærslukerfin rokka út og suður og þegar verið er að óska eftir nýju vinnumarkaðslíkani á Íslandi þá verða menn að fara í það að búa til þann velferðarstöðugleika og félagslegan stöðugleika sem ríkir á Norðurlöndunum. Þar er ekkert verið að taka barnabætur af fólki af því að launin hækkuðu pínulítið eða af því að eignin hækkaði í einhverri þenslu. Fólk heldur sínum bótum, tilfærslukerfið haggast ekki, persónuafslátturinn fylgir ekki þeim launabreytingum sem eiga sér stað þar. Allt þetta verður að fara saman. Það er ekki hægt að ætlast til þess að íslenskt launafólk sé alltaf tilbúið til þess að taka á sig skertan hlut.

Það verður þá okkar verkefni hér inni á þingi að vinna að því að búa til þennan stöðugleika. En einhverra hluta vegna virðist okkur ekki ganga neitt með það. Við erum með fljótandi krónu og það er talið svo hagfellt að vera með fljótandi krónu, en samt erum við með þessa krónu — hún er bæði með belti og axlabönd. Við erum með einhver þjóðhagsvarúðartæki til að verja hvað? Ónýtan gjaldmiðil sem sveiflast upp og niður. Við eigum gjaldeyrisvarasjóð til að reyna að halda krónunni svona sæmilegri. Við bönnum lífeyrissjóðunum að fara úr landi til að fjárfesta þar sem þeir telja að þeir geti notið bestrar ávöxtunar. Ég skil því ekki hvers vegna við höldum áfram að reyna að viðhalda stöðugleika í þessu skrýtna umhverfi og legg til að það verði áskorun sem við förum að takast á við.