Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[20:42]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í þessa umræðu. Mestur hluti af tíma hans fór í að ræða stöðu sveitarfélaganna en ég ætla samt sem áður að byrja á því að spyrja hann að öðru. Það kom ekki fram hjá hv. þingmanni hvaða leiðir hann eða Viðreisn vill fara til að hægja eða flýta niðurgreiðslu skulda þegar hann talaði um að skuldir væru í rauninni að aukast á þessu tímabili. Hvaða leiðir sér hann fyrir sér til að takast á við það?

Síðan vil ég fara inn á sveitarfélagamálin. Ég er alveg sammála því að við þurfum að huga að tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Við höfum margrætt það hér og það eina sem hefur svo sem komið út úr því er skattur tengdur ferðaþjónustunni sem hefur svo verið aflagður, gistináttaskatturinn, eða lagður til hliðar í bili þannig að það er nú lítið að koma inn þar. Hvaða hugmyndir hefur hv. þingmaður um hvað gæti komið þar til til að búa til nýja tekjustofna eða annað slíkt? Ég er alveg hjartanlega sammála því að við höfum sem hitt stjórnvaldið verið að leggja auknar álögur á sveitarfélögin með alls konar nýjum frumvörpum og reglugerðum og hvað það nú heitir allt saman. Ég vil þó segja, af því að hv. þingmaður vitnaði í samband íslenskra sveitarfélaga, að það kemur samt sem áður fram þar að gert er ráð fyrir því að af 67 sveitarfélögum sem eru með 99,9% íbúa verði 32 rekin með halla en 35 með afgangi, þannig að þau seinni eru örlítið fleiri. Sem betur fer er það þannig því að útkomuspáin miðað við síðasta ár var að 27 yrðu rekin með afgangi en 42 með halla. Það er sem betur fer eitthvað gott að gerast, það er að virka að atvinnuvegurinn er greinilega farinn í gang.