Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[21:01]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Það er einmitt óhjákvæmileg staðreynd að það þarf að afla meiri tekna til lengri tíma miðað við þá þróun sem er máluð upp í fjármálastefnunni, t.d. vegna öldrunar þjóðar sem veldur meira álagi á lífeyriskerfið og meira álagi á heilbrigðiskerfið. Það er bara óhjákvæmilegt. Stefnan virðist hins vegar vera að gera það ekki á tímabili þessarar fjármálastefnu og þar af leiðandi á að safna meiri halla en ella af því að þarna undir er ósjálfbærni. Það á að reyna að vega hvort tveggja upp, hallann vegna faraldursins og þessa ósjálfbærni með meiri hagvexti en langtímahagvöxtur gerir ráð fyrir. Ég sé ekkert í fjármálaáætlun og fjármálastefnu sem segir hvernig ríkisstjórnin ætlar að búa til aukinn hagvöxt, það er ekkert um það. Ég sé ekkert um það hvernig á að leysa vandamálið sem er undirliggjandi. Eftir stend ég og klóra mér í hausnum. Ég er með fullt af hugmyndum. Ég hef bara ekki aðstöðu til að meta hversu umfangsmiklar þær hugmyndir eru, hversu langt þær myndu ná til að bæta upp þessa ósjálfbærni. (Forseti hringir.) Við í stjórnarandstöðunni höfum ekki það svigrúm að geta farið í stjórnsýsluna og safnað því saman. (Forseti hringir.) Það er ómögulegt. Hvar stöndum við þegar stjórnarflokkarnir geta það ekki einu sinni? .