152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

blóðmerahald.

[15:41]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni frumkvæðið og ég held að það sé mjög gott að fá tækifæri til að ræða þetta mál hér í þingsal. Ég ætla að freista þess að svara þeim spurningum sem fram koma í máli hv. þingmanns eins og mér er best kleift.

Hv. þingmaður byrjaði á því að spyrja hvort ég væri meðvituð um þá miklu neikvæðu umræðu um blóðmerahald á Íslandi sem á sér stað víða í Evrópu í kjölfar heimildarmyndar um þessa starfsemi hér á landi. Því er fljótsvarað: Auðvitað hef ég orðið vör við þá umræðu sem hefur skapast. Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur frá utanríkisráðuneytinu hefur umræðan vissulega verið fyrir hendi í Evrópu. Sú umræða sem þar hefur verið er neikvæð og örugglega til þess fallin að hafa neikvæð áhrif á ímynd landsins þótt hún hafi ekki verið mjög umfangsmikil að sögn utanríkisráðuneytisins.

Ég skipaði starfshóp í byrjun árs sem hefur það hlutverk að fjalla um blóðtöku á fylfullum hryssum. Fulltrúi minn leiðir þann hóp en auk þess sitja í honum fulltrúar Matvælastofnunar og Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Þessum hópi er ætlað að skoða starfsemina, regluverkið og eftirlitið í kringum hana. Það er mikilvægt að brugðist sé við þessari umræðu með allar staðreyndir málsins uppi á borðum. En enn mikilvægara er að tryggja velferð þeirra dýra sem þarna um ræðir og það er okkar helsta markmið. Það er raunar bundið í lög. Ég hef lagt að hópnum að skila af sér fyrr en stóð til í upphafi vegna þess hversu alvarlegum augum ég lít þetta mál.

Hv. þingmaður spyr síðan um það hvernig ég hyggist bregðast við til að verja orðspor Íslands á erlendri grundu. Ég svara því með tilvísun til fyrra svars. Ég tel að bestu viðbrögðin til að verja okkar orðspor sé að allar ákvarðanir séu byggðar á sem mestri þekkingu og staðreyndum. Þegar niðurstöður starfshópsins liggja fyrir, sem verður vonandi strax í næsta mánuði, verður tímabært að taka ákvarðanir og ekki hægt að segja til um það í raun hverjar þær verða fyrr en á þeim tímapunkti.

Hv. þingmaður spyr hvort sú sem hér stendur telji réttlætanlegt að fórna svo miklum mun meiri hagsmunum fyrir minni ef blóðmerahald verður ekki stöðvað nú þegar. Spurningin felur það í sér að ég þekki nákvæmlega hverjir þessir hagsmunir eru og geti í raun og veru vegið það og metið með einföldum hætti. Staðreyndin er sú að það er ekki svo að það sé einfalt að meta þessa hagsmuni. Þetta er nefnilega ekki bara spurning um blákalda peningalega hagsmuni og að athuga hvort vegi þyngra, hagsmunir í útflutningi á efninu sem unnið er úr blóði fylfullra hryssa á móti þeim hagsmunum sem sú starfsemi kann að hafa áhrif á. Þetta mál snýst ekki um það og á ekki að gera það. Af hverju segi ég það? Það er vegna þess að ef þessi nálgun væri almenn, þ.e. ef þetta væri bara einfalt reikningsdæmi um krónur og aura, myndum við alltaf taka ákvarðanir út frá fjárhagslegum hagsmunum einum. Það vil ég ekki gera og mun ekki gera þar sem ákveðnar grundvallarreglur eru þarna undir og siðferðileg álitamál, en þau snúa að markmiðum laga um velferð dýra.

Í íslenskri löggjöf eru markmið um velferð dýra þau að stuðla að velferð, að dýrin séu laus við vanlíðan, ótta, hungur o.s.frv. Það er ekki gert af því að við séum svo góð heldur vegna þess að dýr eru skyni gæddar verur og hafa gildi í sjálfu sér. Þannig erum við sem samfélag með dýravelferðarlöggjöfinni að segja að sé gætt að þessum sjónarmiðum þá sé líf þessara dýra þess virði að lifa því. Það skiptir máli að allt líf sé þess virði að vera lifað.

Hv. þingmaður spyr líka hvort ég geti fullyrt á einhverjum tímapunkti að meðferð sem villtar fylfullar hryssur megi þola brjóti ekki í bága við lög um velferð dýra og reglugerðir byggðar á þeim. Það get ég ekki fullyrt, enda eru eftirlitsmenn á vegum ríkisins ekki á vettvangi á öllum búum allt árið. Það er hins vegar skylda allra sem halda dýr að fara að lögum, óháð því hver sú starfsemi er.

Virðulegi forseti. Ég vona að ég komi fleiri svörum og betri að hér síðar í umræðunni.