152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

blóðmerahald.

[15:54]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Ingu Sæland, fyrir þessa umræðu og ég vil einnig þakka hæstv. ráðherra fyrir sitt innlegg og öðrum sem hafa komið hérna. Það er ósköp eðlilegt að fólki um allan heim hafi brugðið við að horfa á þessa heimildarmynd. En er þetta heilagur sannleikur í öllu málinu? Jú, það sem gerðist þarna er að vissu leyti mjög slæmt frávik. Ég ætla ekki að draga nokkurn skapaðan hlut úr því að það sem þarna var gert, og ég tek undir það með þeim sem hafa komið fram, var ekki sviðsett. Við skulum alveg hafa það á hreinu. En við skulum líka hafa það á hreinu að það sem við horfðum á var ekki það sem normið gengur út á. Heilt yfir eru menn að stunda þessa grein af alúð, eru að gera þetta vel, en vissulega má alltaf gera betur. Við höfum verið að fjalla um þetta mál í atvinnuveganefnd undanfarið. Fjölmargar umsagnir hafa komið til nefndarinnar, einar 137 umsagnir, og sitt sýnist hverjum. Fjölmargar umsagnir lýsa því yfir að menn vilji blátt bann við blóðmerahaldi og það bara strax en aðrir fara mýkri höndum um málið. Það er okkar innan nefndarinnar að vinna úr og meta og leggja til við ráðherra hvað gert verður í framhaldinu. Við bönnum ekki atvinnugrein á Íslandi með því að styðjast eingöngu við heimildarmynd sem er tekin upp af erlendum dýraverndarsinnum.