152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

blóðmerahald.

[16:13]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Ingu Sæland, fyrir þessa umræðu og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir hennar svör hér í umræðunni áðan. Það mál sem við erum að ræða hér, bann við blóðmerahaldi, er nú til umræðu í atvinnuveganefnd og hefur nefndin fjallað um það á tveimur fundum það sem af er þessu ári. Á fundinum í gær fékk nefndin gesti, m.a. frá Ísteka ehf., Dýralæknafélagi Íslands, Dýraverndarsambandi Íslands, Félagi tamningamanna og Landssambandi hestamannafélaga. Áður hafði nefndin rætt við ráðuneyti matvæla sem fór yfir málið og aðkomu þess að málinu og þá vinnu sem unnin er. Hæstv. ráðherra kom inn á í framsögn sinni áðan þá vinnu sem er í gangi núna til þess að greina þá umgjörð sem um atvinnugreinina er.

Ég verð að segja að sú umfjöllun sem fór fram á fundum nefndarinnar var mjög áhugaverð og upplýsandi þar sem mikið kom fram af upplýsingum sem eru mjög mikilvægar í því verkefni til að hægt sé að mynda sér fullkomlega skoðun á þessu máli. Það mikilvægasta í málinu er að hafa upplýsingar og hafa þær réttar og sem réttastar upplýsingar á hverjum tíma. Það er ekki hægt að taka ákvörðun án þess að fyrir liggi upplýsingar um atriði og efnistök málsins.

En um hvað snýst þetta? Fram hefur komið þetta myndband sem var af þessari blóðtöku úr hryssum fyrir Ísteka. Ég hef engan hitt sem reynt hefur að mæla þessu myndbandi bót eða tala fyrir því sem þar kom fram. Það sem gerðist þar er algerlega óverjandi. En það er frávik, eftir því sem fram hefur komið hér, sérstaklega í máli Dýralæknafélags Íslands. Við verðum að horfa á þetta þannig að við erum að tala um, og matið snýst um það, hvort við ætlum að banna hér atvinnustarfsemi, og svo hitt, þetta einstaka atvik sem kom fram í myndbandinu. Við verðum að gera okkur grein fyrir og gera greinarmun á þessu tvennu að mínu viti.