152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

viðspyrnustyrkir.

291. mál
[17:53]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hérna viðspyrnustyrki. Áðan fór ég að hugsa um styrkjamál ríkisstjórnarinnar undanfarin ár. Viðspyrnustyrkir eru góðir fyrir fyrirtæki sem farið hafa illa út úr Covid-faraldrinum en eiga auðvitað ekki við um fyrirtæki sem nýta sér skattaskjól og aflandsfélög. Þau eiga alls ekki að fá stuðning úr ríkissjóði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þannig byrjaði ég þá ræðu, en svo fór ég að hugsa: Styrkir, hvað er það sem ríkissjóður er að styrkja og hvað telur hún nauðsynlegt að ræða í sambandi við styrki, viðspyrnustyrki, alls konar styrki, og hvað ekki? Fyrst ríkisstjórnin er tilbúin til að styrkja fyrirtæki á ýmsan hátt er auðvitað sjálfsagt að næsta mál sé að styrkja þá sem eru verst settir fjárhagslega með því að stórhækka persónuafslátt sem hefur ekki fylgt launaþróun og ætti að vera nærri tvöfalt hærri en hann er í dag ef rétt væri gefið. Þá þarf einnig nauðsynlega að styrkja vel og vandlega barna- og vaxtabótakerfið til að það þjóni þeim tilgangi sínum að létta undir með fjölskyldum. Einnig vantar styrka hönd ríkisstjórnarinnar með vænlegum fjárhagslegum styrkjum til að útrýma keðjuverkandi tekjuskerðingum og tekjutengingum í almannatryggingakerfinu.

Flokkur fólksins mótmælir harðlega þessu stefnuleysi í styrkjamálum ríkisstjórnarinnar sem leiðir þá verst settu í sárafátækt. Því miður virðist ríkisstjórnin ekki ætla að hverfa frá þessari ömurlegu stefnu heldur auka enn meira á mismuninn. Þá telur Flokkur fólksins ámælisvert að jafnréttis sé ekki gætt í styrkjamálum ríkisstjórnarinnar og þar sé ekki að finna hvernig eigi að styrkja þá sem orðið hafa fyrir stórfelldri kjaragliðnun undanfarna áratugi. Hvar er styrkjastefna ríkisstjórnarinnar um það hvernig eigi að mæta erfiðum aðstæðum á húsnæðismarkaði? Raunverð húsnæðis hækkar og er nú í sögulegum hæðum og hefur hækkað langt umfram ráðstöfunartekjur ungs fólks og munu hækkandi vextir gera fyrstu kaupendum ómögulegt að komast inn á húsnæðismarkað. Hvar er stórhækkun á húsnæðisstyrkjum? Er það ekki í styrkum höndum ríkisstjórnarinnar og í vinnslu í nefnd? Nei, auðvitað ekki. Húsaleigustyrkir þurfa að stórhækka því að leigjendur eru því miður algjörlega berskjaldaðir fyrir fordæmalausri hækkun leiguverðs. Lyfjastyrkir þurfa að hækka þannig að þeir verst settu geti leyst út lyfin sín. Bifreiðastyrkir fatlaðra þurfa að hækka til að þeir dugi þeim sem á þurfa að halda og geti styrkri hendi keypt bifreið sem þörf er á til að komast leiðar sinnar. Bensínstyrki almannatrygginga þarf að hækka samkvæmt launavísitölu svo þeir standi undir stórhækkun bensínverðs. Það er nauðsynlegt að taka strax á stórhækkun leiguverðs og gera umbætur á leigumarkaði þannig að leigustyrkir hækki svo enginn borgi meira en 20–25% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu eða afborgun af húsnæði. (Forseti hringir.) Þarna eru stjórnvöld með styrkjakerfið á hælunum og langt frá því að standa við loforð sem gefin voru fyrir síðustu kosningar.

Flokkur fólksins telur stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum styrkjamálum ekki á nokkurn hátt mæta þörfum þeirra verst settu í íslensku samfélagi. Engin aukning er á styrkjum handa þeim sem verst hafa það og þess vegna er leið þessa hóps sú eina að herða sultarólina enn frekar sem er eiginlega ekki hægt að bjóða þeim upp á lengur, þau geta ekki beðið lengur eftir réttlætinu. Flokkur fólksins krefst þess að arðgreiðslur af eignum ríkisins verði notaðar sem viðspyrnustyrkir til að koma fólki úr fátækt og einnig til að sjá til þess strax að engin börn þurfi að búa við sárafátækt. Ég segi: Viðspyrnustyrkir og styrkir fyrir alla, ekki bara einn hóp.