152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

Sundabraut.

45. mál
[18:17]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það væri óskandi stundum að myndavélarnar næðu svipnum á fólki í salnum þegar hv. þingmenn mismæla sig svona illa í pontu, því öll vorum við jafn ráðvillt. En þessu tengt þá lít ég svo á að þegar við ætlum að leggja út í meiri háttar framkvæmdir — ég lít ekkert svo á, það er skylda að horfa til mismunandi valkosta. Hv. þingmaður kom inn á áratugalangar deilur varðandi vegagerð um Teigsskóg og þar held ég að við hv. þingmaður séum ekkert endilega sérstaklega sammála. Ef einn af kostunum er Sundagöng, sem við skiljum öll að hv. þingmaður er ekkert sérstaklega hlynntur, og er sá kostur sem kemur best út í umhverfislegu tilliti, ber ekki að horfa til þess? Mig langar að spyrja hv. þingmann að því vegna þess að hann getur þess sérstaklega, og hans meðflutningsmenn í þessari tillögu, að markmið skipulagslaga sé að þróun byggðar og landnotkun í landinu verði í samræmi við efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna. Ég sakna þess svolítið í greinargerðinni að horft sé til umhverfislegra vinkla í þessu samhengi og e.t.v. kann að vera að kosturinn göng komi best út í umhverfislegu samhengi. Þar gætum við t.d. horft til frænda okkar í Færeyjum sem, eftir því sem ég kemst næst, stefna að því að vera með hringtorg neðan sjávar á milli eyja. Þessar lausnir eru til að mörgu leyti. Sannarlega kosta þær meira, en er það sannarlega svo — hv. þingmaður nefnir töluna 14 milljarða — að hugsanleg umhverfisáhrif af gerð brúar eða brautar séu réttlætanleg þegar e.t.v. er ekki um hærri upphæð að ræða?