152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

Sundabraut.

45. mál
[18:57]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni seinna andsvar. Já, ég hef líka búið í landi þar sem er ótrúlegt magn af göngum, skrifaði grein um það fyrir kosningar og rannsakaði þetta aðeins. Ég hef búið í Noregi og þar, árið 2018, voru 1.164 göng. Þau eru sennilega orðin hátt í 1.200 í Noregi. Á Íslandi eru tíu göng í notkun. Stærðarmunurinn og ríkidæmi Noregs útskýrir ekki þennan mun, engan veginn. Þetta framtaksleysi Íslendinga í jarðgangagerð er alveg með ólíkindum. Það er miklu minna fjalllendi hér en þar. Það eru líka jarðgöng í miðborg Óslóar, sem dæmi. Ástæðan fyrir töfunum er að það eru margir íbúar, einhver hluti íbúa, óánægðir með framkvæmdina og borgin vill ekki styggja þennan hluta íbúanna og tekur ákvörðun um að salta málið og að þetta verði einhvern tímann í framtíðinni, en borgin vildi göng 2008. Þetta er búið að tefjast það lengi að Alþingi Íslendinga verður að taka ákvörðun um brú. Við búum í þingræðisríki og ef við segjum að það verði brú þá erum við búin að taka ákvörðun um það. Þannig er það. Það er grundvallaratriði.

Varðandi kostnaðinn þá mun þessi framkvæmd kosta gríðarlegar fjárhæðir. Þessi tillaga fjallar ekki um það hvernig eigi að fjármagna Sundabrú. Það er ákvörðun sem er seinni tíma mál. Að sjálfsögðu eru gríðarlegar tekjur af bifreiðagjöldum og öðru slíku og ég tel rétt að þetta verði fyrst og fremst borgað með skattpeningum og sett í forgang miðað við aðrar framkvæmdir og það er m.a. vegna teknanna. En svo er líka alveg hægt að hugsa sér einhvers konar Hvalfjarðarmódel, það yrði greiðsla, en það má alls ekki bitna á efnaminna fólki og á landsbyggðinni. Það er alveg hægt að hugsa sér eitthvert módel þar sem einhver hluti yrði kannski greiddur, en það má ekki bitna á þessum hópum. Ég tel ekki heldur forsvaranlegt (Forseti hringir.) að fara í gjaldtöku þegar mannvirkið verður innan borgarlandsins, þ.e. fólk er að keyra á milli hverfa í Reykjavík.