152. löggjafarþing — 41. fundur,  24. feb. 2022.

fiskveiðistjórn.

386. mál
[11:09]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 550, sem er 386. mál, um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar, um eftirlit Fiskistofu o.fl. Um er að ræða breytingu á lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og lögum nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Í lok árs 2018 skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu til Alþingis um eftirlit Fiskistofu með fiskveiðum þar sem álitið var að ráðast þyrfti í ýmsar úrbætur hjá stofnuninni til að hún geti sinnt eftirliti með skilvirkum og árangursríkum hætti.

Unnið hefur verið að úrbótum samkvæmt ábendingum í skýrslunni og er frumvarpið liður í því starfi. Í mars 2019 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verkefnisstjórn um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni og um leið var settur á fót samráðshópur með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi, stofnana og helstu hagaðila í sjávarútvegi en skýrsla þeirrar verkefnisstjórnar kom út í júní 2020.

Frumvarpið leggur til eftirfarandi atriði: Í fyrsta lagi auknar heimildir Fiskistofu til dagsekta og skýrari málsmeðferð um álagningu þeirra, í öðru lagi auknar heimildir til rafræns eftirlits Fiskistofu og í þriðja lagi heimildir til opinberrar birtingar á sviptingum eða afturköllun leyfa.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir sterkari heimildum Fiskistofu til innheimtu dagsekta en í gildandi lögum er heimilt að leggja dagsektir á aðila sem ekki skila skýrslum um ráðstöfun og vinnslu afla. Lagt er til að Fiskistofu verði heimilt að leggja dagsektir á í fleiri tilvikum, á hvern þann sem vanrækir að veita stofnuninni þær upplýsingar sem viðkomandi ber að veita lögum samkvæmt, svo sem upplýsingar um viðskipti með skip og aflamark. Þá eru ákvæði um málsmeðferð dagsektarmála, að stofnunin skuli fyrst skora á hvern þann sem vanrækir að veita upplýsingar að bæta úr og gefa viðkomandi kost á að upplýsa um ástæður tafa við upplýsingaskil. Þá skuli Fiskistofa leiðbeina viðkomandi um að dagsektir verði lagðar á að liðnum fresti hafi umræddar upplýsingar ekki borist. Lagt er til að kveðið verði á um það að óinnheimtar dagsektir falli ekki niður. Er það gert til að tryggja að úrræðið hafi tilhlýðileg fælingar- og varnaðaráhrif. Lagt er til að dagsektir skuli nema 30.000 kr. fyrir hvern byrjaðan dag og geti hæstar orðið 1,5 milljónir kr.

Með frumvarpinu eru lagðar til heimildir til Fiskistofu til að efla eftirlit með rafrænni vöktun, þar með talið notkun svonefndra flygilda eða dróna sem talið er að geti aukið þekju og styrkt framkvæmd eftirlits. Þá er talið nauðsynlegt að styrkja heimildir til rafrænnar aflaskráningar og myndavélaeftirlits. Lagt er til að eftirlitsmönnum Fiskistofu verði heimill aðgangur að upplýsingum sem verða til við rafræna vöktun á löndunarhöfnum í þeim tilgangi að hafa eftirlit með löndun afla. Þá eru lagðar til breytingar á lögum um Fiskistofu sem miða að því að veita stofnuninni heimild til vinnslu upplýsinga vegna rafræns eftirlits og að auki er lagt til að sett verði bráðabirgðaákvæði sem heimilar Fiskistofu að fara í samstarf við útgerðaraðila um notkun myndavéla um borð í fiskiskipum í eftirlitsskyni. Er þetta í samræmi við tillögur verkefnisstjórnarinnar um að stofnunin fái skýrar lagaheimildir í þessu efni.

Lagt er til að skýrt verði mælt fyrir um heimild Fiskistofu til að birta opinberlega ákvarðanir um sviptingu veiðileyfa og afturköllun vigtunarleyfa. Miðar það að því að auka enn frekar gagnsæi í störfum Fiskistofu sem og fyrirsjáanleika fyrir þau sem starfa í greininni og veita bæði þeim og Fiskistofu tilhlýðilegt aðhald. Við samningu ákvæða um heimildir Fiskistofu til að viðhafa rafrænt eftirlit var gætt að 71. gr. stjórnarskrár Íslands um friðhelgi einkalífs og að reglurnar samræmdust lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.

Frumvarpið var samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samstarfi við Fiskistofu, Landhelgisgæsluna og helstu haghafar. Í grunninn var það byggt á tillögum fyrrnefndrar verkefnisstjórnar. Drög að frumvarpinu voru birt 26. febrúar 2021 í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum island.is, og var þar mál númer S62. Það var lagt fram á 151. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Í janúar síðastliðnum var svo ákveðið, í minni ráðherratíð, að leggja frumvarpið fram með breyttu sniði þannig að ákvæði um stjórnvaldssektir og tengda aðila hafa fallið brott þar sem ný nefnd á m.a. að fjalla um þau efni á ný. Ég hyggst kynna minnisblað í ríkisstjórn á morgun um þau mál þar sem verkáætlun um störf nefndar um sjávarútveg verður rakin og í framhaldinu fer sú verkáætlun í samráðsgátt stjórnvalda. En eins og ég hef sagt áður úr þessum ræðustóli tel ég mjög brýnt að þegar unnið er að því að bæta kerfið í átt til réttlætis, sanngirni og aukinnar sáttar sé það gert á grunni gegnsæis. Það þýðir vitanlega að skoða þarf eignatengsl og stöðu ólíkra fyrirtækja í eigu sama aðila o.s.frv. eins og áður hefur verið nefnt hér í öðrum dagskrárliðum.

Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið meginefni þessa frumvarps og vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir því en þar er ítarlega fjallað um efni þess. Að lokinni 1. umr. legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.