152. löggjafarþing — 41. fundur,  24. feb. 2022.

fiskveiðistjórn.

386. mál
[11:16]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði að þakka hæstv. ráðherra fyrir að flytja frumvarp til að geta eflt eftirlit Fiskistofu. Ég og hæstv. ráðherra höfum einmitt rætt það á nefndarfundi hvað það sé mikilvægt að eftirlit Fiskistofu sé öflugt og að góðar lagaheimildir séu á bak við allt sem þar er. Þá horfir maður svolítið til þess sérstaklega að það komu mjög sorglegar fréttir, myndi ég segja, fyrir áramót um mikið brottkast. Það eftirlit sem Fiskistofa hefði haft með nýtingu tækni hefði sýnt fram á að brottkast væri allt að tífalt meira en við héldum að það væri en að sama skapi, varðandi það hvernig þetta eftirlit færi fram, þyrfti að passa að það hefði hvorki áhrif á persónuverndarrétt og annað, það væri vel hugsað um þetta. Það er ánægjulegt að sjá að verið er að taka á mörgum af þeim atriðum í þessu frumvarpi. En mig langar að hvetja hæstv. ráðherra til þess að fókusera ekki bara á það að bæta lagagrundvöllinn heldur líka fjárhagslegan grundvöll þannig að hægt sé að halda úti virku eftirliti með fiskveiðum. Bara sem dæmi, sá dróni sem Fiskistofa hefur verið að nota til eftirlits með brottkasti, nær aðeins um 40–50 km út frá landi. Ég veit að til eru öflugri drónar, t.d. hjá Landhelgisgæslunni, en þeir hafa ekki hingað til verið notaðir í eftirlit. Við vitum það líka að mörg af okkar stærri fiskiskipum veiða fyrir utan þetta. Þetta er ekki bara mikilvægt vegna brottkasts heldur líka vegna almenns eftirlits. Er verið að veiða á réttum svæðum? Við eigum að geta nýtt tækni, hvort sem það eru drónar eða annað, nú eru að koma enn öflugri gervihnettir með hærri upplausn og hægt að fylgjast með næstum því í rauntíma hvar skip eru að sigla. Og það er mikilvægt að við uppfærum lögin og lagagrundvöllinn eftir því sem tækninni og öðru fleygir fram. Og ég bara lýsi því yfir, eins og ég gerði á fundi atvinnuveganefndar þegar hæstv. ráðherra kynnti málaskrá sína og ræddi m.a. um þetta mál, að við munum vinna vel í atvinnuveganefnd til að tryggja að þetta gangi vel áfram. Bara endilega passa upp á að fjárveitingarnar komi líka. Það er ekki nóg að við vitum að við getum fylgst með, við þurfum að fylgjast með og til þess þurfum við fjármagn.