152. löggjafarþing — 41. fundur,  24. feb. 2022.

almannatryggingar.

69. mál
[12:00]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Frú forseti. Ég er ekki sérfræðingur í almannatryggingakerfinu eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson en mér ofbýður þessi vanvirðing gagnvart einstaklingum sem í rauninni hafa ekki úr miklu að spila. Mér ofbýður að við skulum ekki meta einstaklingsréttindi öryrkja meira heldur en þetta. Við erum sjálfstæðar persónur líka í hjónabandi og í hvers kyns sambandi sem það er. Það að við skulum alltaf vera tilbúin til að ráðast gegn þeim sem verst standa og velta fyrir okkur hvernig við getum skert það sem þeir eiga rétt á að fá úr opinberum sjóðum vegna örorku, sannanlegrar örorku — ef einstaklingur á rétt á örorku þá á hann rétt á henni. Þá kemur það ríkinu ekki nokkurn skapaðan hlut við hvort maki hans hafi einhverjar tekjur vegna þess að þetta eru tveir aðskildir einstaklingar þrátt fyrir að reka kannski saman heimili. Þetta er bara hliðstætt við að laun væru skert hjá einhverjum af því að maki hans fær svo há laun. Við getum ekki hugsað þetta svona. Við megum ekki gera það. Ef einstaklingur á rétt á örorkubótum þá á hann það. Hann á rétt á þeim, alveg burt séð frá því hvort maki hans hafi einhverjar tekjur sem gætu — það bara skiptir ekki máli, þær eiga ekki að koma til skerðingar. Ég ætla því bara að hvetja þingheim til að fara að virða einstaklingsréttindi öryrkja sem og annarra, þ.e. að öryrkjar eiga a.m.k. að njóta sömu virðingar og sömu réttinda og aðrir einstaklingar í þessu þjóðfélagi.