152. löggjafarþing — 42. fundur,  24. feb. 2022.

staðfesting samninga Íslands um afmörkun landgrunnsins handan 200 sjómílna.

354. mál
[13:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á tveimur samningum Íslands, við Noreg annars vegar og við Danmörku fyrir hönd Færeyja hins vegar, um afmörkun landgrunnsins handan 200 sjómílna í Síldarsmugunni, en samningar voru undirritaðir í Stokkhólmi 30. október 2019. Kjarnaákvæði samninganna ákvarða markalínur sem tilgreina skilin milli landgrunns landanna þriggja innan Síldarsmugunnar.

Í samningnum við Danmörku fyrir hönd Færeyja er fjallað um reglur sem gilda um nýtingu hugsanlegra auðlinda á svæðinu en megininntak þeirra reglna er að ríkin skuli hafa með sér samráð við nýtingu jarðefnalaga sem kunna að finnast.

Í samningnum við Noreg er ekki að finna nein efnisákvæði um auðlindanýtingu heldur er þess í stað vísað til samnings milli Íslands og Noregs frá 3. nóvember 2008 um vetniskolefnislög sem liggja yfir markalínur.

Samningarnir skuldbinda ekki Ísland að neinu leyti til þátttöku í leit eða vinnslu á olíu og hafa því engin áhrif á stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Vert er einnig að taka fram að vegna staðsetningar hafsbotnsins á svæðinu er ólíklegt að þar sé að finna vetniskolefnislög eða aðrar jarðefnaauðlindir. Einnig rétt að árétta að samningarnir fjalla einungis um skiptingu landgrunnsins, þ.e. hafsbotnsins og taka ekki að neinu leyti til fiskveiða á svæðinu.

Virðulegur forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.