152. löggjafarþing — 42. fundur,  24. feb. 2022.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

74. mál
[14:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við í Flokki fólksins styðjum heils hugar þetta frumvarp og stöndum heils hugar á bak við það. Þetta er mjög þarft frumvarp vegna þess að við vitum hversu stór hópur fólks fór illa út úr bankahruninu á sínum tíma. Ef við hugsum til baka þá hljótum við að átta okkur á því að það er eitthvað stórfurðulegt og eitthvað heimskulegt og eitthvað stórlega bogið við það ef hægt er að segja við fólk: Þú getur borgað leigu, 200.000–250.000 kr. á mánuði. Og fjölskylda borgar það kannski í þrjú, fjögur, fimm, sex ár og áttar sig á því að hún getur keypt íbúð og getur tekið lán fyrir því og þarf að borga 100.000 kr. afborgun af láninu, en þá eru allar dyr lokaðar. Það er svo mikil heilbrigð skynsemi í því að fara þessa leið að það hlýtur að vera eitthvað bogið við það kerfi sem segir ekki: Já, gerðu þetta. Þú ert búinn að sanna það að þú getur verið á leigumarkaði og sannað það að þú getur borgað þessa tilteknu leigu, gífurlega háa leigu sem er kannski allt upp í 40, 50 eða 60% af ráðstöfunartekjum, og núna, sem er skynsamlegt, ferðu niður í 20–30% af ráðstöfunartekjum. Það er einmitt það sem ríkisstjórnin hefur alltaf sagt, að það eigi að stefna að því. En hvernig stefnir hún að því? Með þessum hlutdeildarlánum? Hlutdeildarlánin hafa algerlega misst marks vegna þess að það eru engar íbúðir til. Við erum að tala um íbúðir í dag þar sem fermetrinn er kominn yfir milljón. Klikkunin er algjör. Það er barist um hverja einustu íbúð og það liggur við að það megi þakka fyrir að einhver nái íbúðinni áður en hún er komin 10 milljónum yfir uppsett verð.

Allt þetta er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og í boði ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga í dag. Það er löngu tímabært að taka á þessum málum. Eitt skrefið í því og stórt skref væri t.d. að samþykkja þetta frumvarp. Það er líka öfugsnúið í þessu kerfi að eingöngu þeir sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð mega nýta sér séreignarsparnaðinn. Það hefur alltaf verið besta fjárfestingin sem fólk getur farið í að fjárfesta í íbúð á Íslandi. Það á eiginlega að vera réttur alla en í dag, því miður, er það bara réttur þeirra sem eru efnaðir og hafa virkilega getu til þess. Það skekkir líka myndina fyrir þá einstaklinga eða börn fólks sem lenti t.d. í hruninu eða þá sem eiga ekki foreldra sem geta hjálpað þeim að kaupa íbúð. Vonlaust dæmi. Þú segir ekki við ungmenni í dag: Nú skalt þú bara að leggja fyrir og spara til að kaupa þér íbúð. Ég heyrði í einum sem sagði um daginn að ef hann ætlaði að reyna þetta þá væri það bara gjörsamlega vonlaust dæmi. Það sem viðkomandi gat sparað á einu ári fyrir íbúð sem hann hafði augastað á — þá var hún búin að hækka þrefalt. Hann sá aldrei fram á að hann gæti þetta í náinni framtíð nema hann fengi utanaðkomandi hjálp, hlutdeildarlán myndi dekka millibilið eða hann gæti leitað til foreldra sinna og þeir myndu dekka millibilið. En það hafa bara ekki allir þessi tækifæri og þar af leiðandi verðum við að taka á þessu.

Það er mjög eðlilegt og fullkomlega rétt, eins og kemur fram í frumvarpinu, að ef þú hefur verið á leigumarkaði og sýnt að þú getur staðið undir hárri leigu, jafnvel gífurlega hárri leigu, í þrjú ár, þá á að vera sjálfsagt að geta gengið inn í þetta. Ef þú getur ekki gert þetta hjá bönkunum þá áttu að geta gengið inn í opinbert kerfi og fengið aðstoð til að fylgja þeirri skynsemi að fara úr 200.000 kr. eða 250.000 kr. afborgun niður í 100.000 kr. afborgun. Þetta er svo mikið heilbrigði skynsemi að það er með ólíkindum að við skulum þurfa að standa hér á Alþingi og reyna að fá svona hluti gerða. Það sýnir okkur að ríkisstjórnir undanfarinna ára og ríkisstjórnin núverandi er gjörsamlega vanhæf til að taka á þessum málum. Þá spyr maður sig: Fyrir hverja er þessi ríkisstjórn? Hún er a.m.k. ekki fyrir þorra almennings, ekki fyrir venjulegt fólk. Hún virðist eingöngu vera fyrir fyrirtæki, banka og fjármálastofnanir. Þessu þarf að breyta. Ég vona heitt og innilega að ef þessi ríkisstjórn breytir þessu ekki þá muni almenningur sjá til þess að ríkisstjórnin verði sett frá og þeir komist að sem vilja virkilega breyta þessu kerfi.