152. löggjafarþing — 42. fundur,  24. feb. 2022.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

74. mál
[14:41]
Horfa

Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa komið og stutt þetta frumvarp; Gísla Rafni Ólafssyni, Kolbrúnu Baldursdóttur og Guðmundi Inga Kristinssyni. Mig langar líka að snerta á nokkrum hlutum sem komu fram í málflutningi þeirra. Það er alveg rétt sem hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson benti á, séreignarsparnaðurinn er til efri áranna. Ég hef margoft mótmælt því að þetta sé lausn stjórnvalda, að nota séreignarsparnaðinn í þetta. Ég er í raun alfarið á móti því vegna þess einmitt að þetta á að vera til efri áranna og við eigum í þessu þjóðfélagi, eins og öðrum vestrænum þjóðfélögum, að geta bæði lagt fyrir til efri áranna og eignast húsnæði.

Málið er hins vegar að við erum bara á mjög brengluðum húsnæðismarkaði og það þarf einhvern veginn að plástra hann. Við náum ekki að skera hann upp, sérstaklega ekki þegar við erum í stjórnarandstöðu, og gera það sem þyrfti kannski að gera. En þetta er lausn sem var í boði fyrir fólk til að kaupa sína fyrstu íbúð og þetta er það eina sem við höfum, sem við getum hugsanlega reynt að gera fyrir þá sem eru fastir á leigumarkaði til að auðvelda þeim leiðina inn. Þetta er það sem við erum að reyna að gera. Svo verðum við líka að leggja fram frumvörp sem eiga þó a.m.k. kannski einhverja von um að verða samþykkt af því að þau eru, eins og hv. þm. Kolbrún Baldursdóttir orðaði það, mild og sanngjörn. Þess vegna leggjum við þetta fram.

Það er líka alveg rétt að hlutdeildarlánin hafa engan veginn virkað af því að það eru einfaldlega ekki til neinar íbúðir. Og þá komum við náttúrlega að því hvílíkt brjálæði fasteignamarkaðurinn í dag er. Þannig að eins og staðan er núna, þó að þetta frumvarp væri samþykkt, þá myndi það því miður sennilega ekki gera mikið fyrir mjög margt af þessu fólki.

Ég tala náttúrlega svolítið mikið um hrunið og það eru margir sem virðast halda að það sé löngu liðið. Mig langar að segja í því sambandi að það var ekki fyrr en 2019, sem sagt fyrir rétt rúmum tveimur árum, sem mér tókst að semja við bankann í sambandi við mitt húsnæði. Það gekk hreinlega upp af því að ég neitaði að flytja út þegar leigusamningur rann út, og þá fyrst fóru þeir að tala við mig. Þannig voru aðgerðirnar sem fara þurfti í. Ég hef stundum orðað það þannig: Þetta gerir ekkert venjulegt fólk. Fólk flytur út þegar leigusamningur rennur út. Við neituðum að gera það og þar með fór bankinn að tala við okkur. Ef við hefðum ekki neitað að flytja út þá væri ég allslaus í dag. Ég hefði gengið allslaus út úr þessu, algerlega.

Þetta þýðir nákvæmlega það að hrunið er ekki fjarlæg fortíð fyrir þá sem lentu í hakkavélum bankanna. Þetta er bara veruleiki og mjög margir í þjóðfélaginu lifa með afleiðingum þess á hverjum einasta degi. Þannig að í þetta þarf að fara, eins og það sem hv. þm. Kolbrún Baldursdóttir vitnaði í, að í könnun sem hún lét gera hjá Reykjavíkurborg hefði komið í ljós að 8.000 börn í Reykjavík byggju við heimilistekjur undir 440.000 kr., þ.e. að á heimilum 8.000 barna í Reykjavík væru tekjur á heimilinu undir 440.000 kr. Það væri gaman að heyra hvað fjármálaráðherra með öll sín fínu meðaltöl segði við þessari tölu.

Ég ætla líka að benda á annað: Börn eru ekki fjárráða, þannig að það má segja að börn geti í sjálfu sér ekki verið fátæk. Þau geta lifað við fátækt en þau lifa við fátækt af því að foreldrar þeirra eru fátækir. Foreldrar þeirra eru fastir á leigumarkaði. Og hvað skyldi þetta nú vera stór hópur foreldra? Hluti þessara barna er örugglega hjá einstæðum foreldrum, en engu að síður eru þetta alla vega 10.000, jafnvel upp í 16.000 foreldrar. Það er bara staðreyndin í dag. Og það sem við höfum verið að fara fram á hjá Flokki fólksins er að enginn hafi minna en 350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust, sem er reyndar fyrir löngu orðin allt of lág tala en samt náum við því ekki í gegn eða höfum ekki gert hingað til.

Þannig að já, það er eiginlega vonlaust fyrir fólk að leggja til hliðar í dag. Ég get líka sagt að ég hef örlítið verið að fylgjast með fólki núna sem er búið að vera að reyna að eignast íbúð á fasteignamarkaði, að kaupa sér fasteign þar, og það hefur gerst núna í þrígang, þau eru búin að bjóða í fimm íbúðir, að einhver hefur labbað inn, hvað á ég að segja, með poka af peningum og borgað á borðið. Þetta er veruleikinn í dag. Hvernig á fólk að keppa við það? Þannig að ég vona innilega að þetta milda og sanngjarna frumvarp, svo ég vitni í hv. þm. Kolbrúnu Baldursdóttur, nái fram að ganga. Það mun samt aldrei verða meira en plástur á stöðuna eins og hún er.