152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

móttaka flóttafólks frá Úkraínu.

[15:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þótt af nægu sé að taka í íslenskri pólitík — ég gæti komið hingað upp og gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega fyrir slappa stefnu í sjávarútvegsmálum, fyrir að vera ekki með jafnréttismálin alveg í lagi, svo að ég tali nú ekki um efnahagsmálin — þá er það mér ekki efst í huga núna þegar ég stend hér. Ég er nýkomin af þingmannaráðstefnu ESB og NATO-ríkjanna um varnar-, utanríkis- og öryggismál og eðlilega fjallaði dagskráin fyrst og fremst um þennan hrylling, árás Rússa í Úkraínu. Það var ótrúlega dýrmætt að hlusta á sendiherra Úkraínu með tilfinningaþrungna ræðu og leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi, Svetlönu Tsíkhanovskaju, sem við höfum hitt nokkrir þingmenn þegar hún heimsótti íslenska þingið fyrr á síðasta ári þar sem hún var að brýna okkur, en ekki síður var dýrmætt að finna samstöðuna hjá þingmönnum þvert yfir flokka, þvert yfir Evrópu. Allir þingmenn voru að brýna sínar ríkisstjórnir, að ekki væri nóg að gert. Þá fann maður að þrýstingurinn mun koma að innan til þess að gera meira. Það er margt búið að gerast síðan á föstudaginn og mér finnst samstaðan í Evrópu hafa aukist og þrýstingur á Rússa sem betur fer líka.

Ég vil draga það fram að ég er afar ánægð með það hvernig forsætisráðherra og ekki síður utanríkisráðherra hafa af einurð og eindrægni stigið fram og lýst yfir samstöðu og afgerandi ákvörðun um samstöðu og samvinnu gagnvart ofríki Rússa. Ég vil fagna því sérstaklega hvað þær hafa talað skýrt í þessum efnum. En mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra. Það hafa verið tekin mikilvæg skref og afgerandi með því að loka lofthelginni fyrir Rússum en hvenær má búast við skýrri stefnu af hálfu okkar Íslendinga, táknrænni stefnu varðandi það að vera með opinn faðminn, hlýjan faðminn til að taka á móti flóttafólki, hugsanlega frá Úkraínu? Mér þætti gott að fá að vita það og heyra hér afgerandi orð, eins og ráðherrarnir hafa verið með fram til þessa, um að við séum tilbúin þegar til þess kemur.