152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

móttaka flóttafólks frá Úkraínu.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður ræðir hér samstöðu í Evrópu og ég vil líka segja það að mér fannst gott að skynja samstöðuna í þingsal þegar við ræddum þessi mál á þessum vettvangi í síðustu viku, afgerandi samstöðu allra þeirra sem tóku þátt í þeim umræðum. Það er óendanlega dýrmætt. Þar kom fram mjög skýr afstaða allra flokka á Alþingi um að við fordæmum þessa innrás. Það komu líka fram mjög skýr sjónarmið og vilji þingmanna allra flokka um að Ísland leggi sitt af mörkum, m.a. hvað varðar mannúðaraðstoð. Við gripum strax til þess að setja fjármuni í mannúðaraðstoð sem skiptast á milli Rauða krossins og stofnana Sameinuðu þjóðanna. Og af því að hv. þingmaður spyr sérstaklega um flóttafólk þá er talið að núna strax í dag sé hálf milljón manna á flótta og jafnvel er reiknað með því að fjöldinn geti farið upp í 4 til 5 milljónir. Sem svar við spurningu hv. þingmanns vil ég segja það algjörlega skýrt að við munum taka á móti fólki á flótta. Hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur óskað eftir því við flóttamannanefnd að hún komi saman og hefur fundað með henni, beðið hana um að leggja mat á stöðuna og gera tillögu til ríkisstjórnar. Við sjáum það að meiri hluti þeirra sem eru á flótta eru konur og börn og við erum reiðubúin að taka á móti þessu fólki. Sum munu vilja leita tímabundins skjóls og önnur ekki. Á það mun flóttamannanefndin reyna að leggja mat en það liggur algerlega skýrt fyrir að íslensk stjórnvöld eru reiðubúin þegar kallið kemur að taka hér á móti fólki.