152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

mögulega aukin umsvif NATO á Íslandi.

[15:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég hefði vænst þess að hæstv. forsætisráðherra og formaður þjóðaröryggisráðs svaraði spurningunni um hvort hún styðji áframhaldandi og aukin umsvif NATO á Íslandi og aukinn stuðning Íslands við bandalagið. Þetta voru spurningarnar sem ég setti fram en fékk ekki svör við. Það hefur líka komið á daginn að einn helsti veikleiki Evrópu í því að takast á við þetta ástand er hversu háð Evrópa er innflutningi á rússnesku gasi og olíu. Á sama tíma og norsk stjórnvöld eru nýbúin að útdeila 53 leyfum til leitar og vinnslu olíu og gass í norskri lögsögu boðar íslenska ríkisstjórnin bann við olíu- og gasleit í íslenskri lögsögu. Er ekki rétt að endurskoða þessi áform og styðja með því við betri öflun nauðsynlegra orkugjafa, sem losa jafn mikið hvort sem þeir eru framleiddir hér á Vesturlöndum eða í Rússlandi eða annars staðar, að auka framboð þessara (Forseti hringir.) nauðsynlegu orkugjafa hér á Vesturlöndum?