152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

flóttafólk frá Úkraínu og víðar.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni sem ég heyri, bæði frá umræðum hér í síðustu viku sem og á þessum fyrirspurnatíma, að er ofarlega í huga hv. alþingismanna. Ég vitna til þess sem ég nefndi áðan, að félagsmálaráðherra hefur þegar átt fund með flóttamannanefnd þannig að þegar er hafinn undirbúningur þess að geta tekið á móti fólki frá Úkraínu. Húsnæðismál Útlendingastofnunar muni ekki standa í vegi fyrir þeirri móttöku. Ég leyfi mér að rifja hér upp að það er ekki langt um liðið síðan ástand skapaðist í Afganistan og ríkisstjórn Íslands tók þá ákvörðun fyrst að taka á móti tilteknum fjölda fólks og tók svo nýja ákvörðun um að taka á móti auknum fjölda fólks frá Afganistan vegna þess að okkur fannst mikilvægt að axla ábyrgð í samfélagi þjóðanna og tókum við hlutfallslega á móti fleirum en Norðurlöndin við það tækifæri. Þannig að þegar við lítum til þess sem gert hefur verið þá höfum við ekki skorast undan ábyrgð í þessu.

Hv. þingmaður vísar til orða hæstv. dómsmálaráðherra. Ég vil bara leggja áherslu á það að hér er um að ræða fólk í mjög viðkvæmri stöðu og það skiptir að sjálfsögðu máli hvernig við tölum um þessa hópa. Út frá því sem við sjáum þá vitum við að það er u.þ.b. hálf milljón á flótta og það geta orðið fjórar, fimm milljónir eftir því sem menn reyna að sjá fyrir. En við vitum líka að staðan breytist mjög hratt dag frá degi. Við vitum líka út frá því sem við höfum í dag að vafalaust vill flest þetta fólk geta snúið aftur þannig að þarna þarf að huga að því að við getum tekið á móti fólki bæði til skemmri og lengri tíma og að við sýnum að við stöndum með Úkraínumönnum í þeim skelfilegu aðstæðum sem þau eiga nú í.