152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

flóttafólk frá Úkraínu og víðar.

[15:24]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður vísar til þess að þetta séu ólíkir hópar, þ.e. kvótaflóttafólk annars vegar og hins vegar þau sem koma hingað og sækja af sjálfsdáðum um alþjóðlega vernd. Það var unnið að því á síðasta kjörtímabili að reyna að koma á samræmdu móttökukerfi fyrir flóttafólk, m.a. var þingmál sem stoppaði allnokkrum sinnum á Alþingi. Það var hins vegar ýmislegt gert, bæði á vettvangi Fjölmenningarseturs, Vinnumálastofnunar og fleiri aðila til þess að reyna að samræma þetta og tryggja að móttakan sé í samræmi, hvort sem um er að ræða kvótaflóttafólk eða fólk sem kemur hingað í leit að alþjóðlegri vernd.

Hvað varðar samning við Rauða krossinn verð ég eiginlega að vísa þeirri fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra sem fer með það mál og þær ástæður sem hann hefur fyrir þeirri ákvörðun, hún hefur ekki verið borin undir ríkisstjórnina.

En ég vil ítreka að við munum svara kallinu um að taka á móti fólki og ég vil líka benda á að (Forseti hringir.) það skiptir einnig máli að styðja betur við mannúðaraðstoð á staðnum, (Forseti hringir.) því að þar er staðan auðvitað mjög þung.