152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

uppbætur á lífeyri vegna lyfja o.fl.

[15:30]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum bara mjög sammála um þessi mál. Mig langar þó að benda á að stigið var skref, þó svo að það væri ekki risavaxið, hér um áramótin þegar hækkun til örorkulífeyrisþega var prósenti meira en hefði verið ef bara hefði verið miðað við verðlagsbreytingar. Í tengslum við þá ákvörðun ríkisstjórnar og samþykkt Alþingis á fjárlögum var passað upp á að hið svokallaða fall á krónunni yrði úr sögunni þannig að þegar ákveðin hækkun kemur inn verði skerðingar ekki með þeim hætti að örorkulífeyrisþegar missi allar bætur. Það var gríðarlega mikilvægt skref sem ég ákvað að stíga núna um áramótin.

Ég vil líka nefna í þessu samhengi að ég gerði breytingar á reglugerð um áramótin varðandi börn örorkulífeyrisþega. Áður var það þannig að til þess að foreldrar yrðu ekki fyrir skerðingum þurftu börn þeirra, þ.e. eldri en 18 ára, að vera í fullu námi fram til 26 ára aldurs, en núna er það skilyrði ekki lengur fyrir hendi, það er nóg að vera í hlutanámi. Þetta eru lítil skref sem ég nefni hér en þetta eru skref í rétta átt og við munum taka stærri skref á næstu árum því að þetta er forgangshópur.