152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

fjarskiptaöryggi.

[15:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Stríðið í Úkraínu hófst fyrir mörgum árum. Í raun má rekja það til febrúar 2014 þegar Janúkóvítsj var kosinn burt af úkraínska þinginu. Þá var Krímskagi innlimaður og upplýsingastríð Rússa hófst. Það hefur verið kallað ýmsum vægari nöfnum en stríð en það er nauðsynlegt að kalla hlutina réttum nöfnum og aðgerðir Rússa gegn Úkraínu og mörgum öðrum löndum er ekkert annað en upplýsingastríð. Það er til ítarleg skýrsla, kennd við Mueller í Bandaríkjunum, sem sýnir án nokkurs vafa víðtæka árás Rússlands á kosningar í Bandaríkjunum árið 2016. Sú árás fór aðallega fram á samfélagsmiðlum, Fésbók, gagnvart almennum borgurum. Árásirnar voru víðtækar og náðu, m.a. með hjálp fyrirtækja eins og Cambridge Analytica, til Brexit, kosninga á Ítalíu, Keníu, Nígeríu, Mexíkó, Brasilíu, Indlandi, Ungverjalandi og Malasíu. Við vitum þetta út af opinberum rannsóknum og vegna ýmiss gagnaleka. Við vitum að bæði fyrirtæki og ríki hafa stundað víðtækar njósnir og árásir gagnvart almennum borgurum. Við vitum af stafrænum stríðsrekstri Rússa. Við vitum líka að varnir okkar hérna á Íslandi eru ekkert sérstaklega góðar, kannski af því að við höfum ekki tekið þessi mál nægilega alvarlega og kannski líka vegna þess að varnaraðgerðir hafa frekar snúist gegn almennum borgurum en í vörn fyrir þá. Stríð Rússa gagnvart Úkraínu nær líka til okkar því að stríðsvettvangurinn er ekki bara á landi, hann er líka stafrænn. Þótt ekki sé endilega hægt að benda beint á stafrænar árásir Rússa á Ísland er hægt að benda á slíkar árásir gagnvart Bandaríkjunum. Og þar sem samstarf NATO nær til stafrænna árása og fjarskipta vil ég spyrja ráðherra fjarskipta: Hvernig er verið að efla varnir almennra borgara á Íslandi gegn netárásum í ljósi allsherjarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu á landi og NATO í stafrænum heimi?