152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

fjarskiptaöryggi.

[15:34]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Þetta er einn af þeim öngum stöðunnar sem uppi er í dag sem þarf sérstaklega að skoða. Við höfum auðvitað gert mjög mikið í netöryggismálum á undanförnum árum og tekið stór skref til að efla varnir okkar á þeim sviðum. Við höfum núna sett sérstaka netöryggisstefnu ríkisins um net- og upplýsingaöryggi þar sem verður mörkuð sérstök aðgerðaáætlun í hinum ýmsu aðgerðum sem við þurfum að fara í til að tryggja öryggi borgaranna betur þegar kemur að netöryggi í heild sinni. Við erum að vinna sérstaklega í því þar sem við þurfum að gera enn betur vegna þessarar stöðu og höfum sett saman sérstakt teymi í ráðuneytinu og erum í samstarfi við utanríkisráðuneytið varðandi það. Þetta er yfir höfuð mjög stór áskorun, eins og hv. þingmaður nefnir, en ég er viss um að allt það sem við höfum gert undanfarin ár til að styrkja þessar varnir muni skipta okkur og borgarana máli. Ég veit líka að betur má ef duga skal.