152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

fjarskiptaöryggi.

[15:37]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er samtal á milli CERT-IS, ríkislögreglustjóra og utanríkisráðuneytisins um stöðu mála núna frá degi til dags og það eru reglulegir stöðufundir vegna þessa ástands og plan um að upplýsa netöryggisráð um gang mála. CERT-IS er netöryggissveit Fjarskiptastofu. En það er auðvitað mikilvægt að þetta samstarf virki betur og það er búið að gera núna sérstakt plan um mjög skilvirkt samstarf forsætisráðuneytisins sem fer fyrir þjóðaröryggisráði, öryggis- og varnarmálaskrifstofu sem er undir utanríkisráðuneytinu, míns ráðuneytis um netöryggismál og dómsmálaráðuneytisins um netglæpi. Það samstarf sem við höfum gengið í, m.a. í Eistlandi, sem og sú netöryggissveit sem við höfum sett á fót í utanríkisráðuneytinu mun vonandi skila sér í því að við stöndum mun betur að vígi en áður. Auðvitað eru áskoranir núna á hverjum degi og mikilvægt að taka stöðuna á því.