152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

stækkun NATO til austurs.

[15:38]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það var með sanni sérstakt að stíga inn í Hofburg-höllina í Vínarborg á fimmtudaginn á fund í ÖSE-þinginu hafandi fengið þær fréttir um morguninn að eitt ÖSE-ríki hefði hafið allsherjarárás inn í annað. Ég sat um 2 metra frá úkraínska þingmanninum sem hélt hjartnæma ræðu. Hann lýsti því hvernig þingmenn í Úkraínu væru að vopnavæðast og hvernig þingmenn ætluðu út á götur til að berjast fyrir sjálfstæði sínu. Hann bar fram ákall um aðstoð, ákall um vopn, um fjármuni og mannúðaraðstoð. Sem betur fer hafa aðgerðir vestrænna ríkja stigmagnast á síðustu klukkustundum og síðustu dögum og eru núna meiri en við höfum nokkru sinni séð áður frá lokum síðari heimsstyrjaldar. En mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um samstöðu innan NATO-ríkjanna. Hvernig er hljóðið núna í NATO og megum við ekki gera ráð fyrir því að þessi innrás Pútíns hafi einmitt þveröfug áhrif frá því sem hann ætlaði sér? Munum við ekki einmitt sjá varnarbandalagið NATO stækka til austurs? Ég heyrði það á máli við kollega mína í Finnlandi og Svíþjóð að þar væri aukinn stuðningur við inngöngu í NATO. Á hæstv. forsætisráðherra von á því að við fáum innan tíðar umsóknir frá Finnlandi og Svíþjóð og að NATO muni jafnvel svara ákalli Úkraínu?