152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

stækkun NATO til austurs.

[15:44]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég get tekið undir hvert orð hjá hv. þingmanni þegar hún ræddi mögulega ályktun Alþingis því að þetta er auðvitað undirstaðan í því sem íslensk stjórnvöld eru að segja, það er að virða alþjóðalög, það er að virða mannréttindi og það er að leggja niður vopn. Ég vil segja af því hv. þingmaður spyr sérstaklega um Hvíta-Rússland eða Belarús að þvingunaraðgerðir sem tilkynnt var um 5. og 23. febrúar beinast einnig gegn einstaklingum í Belarús sem studdu við árás Rússlands í Úkraínu. Í dag var tilkynnt um breytingu á gildandi þvingunaraðgerðum gegn Belarús þar sem 27 einstaklingum og sjö lögaðilum var bætt á lista yfir þau sem sæta þvingunaraðgerðum, þannig að þvingunaraðgerðir gegn Belarús hafa verið gagnvart einstaklingum og lögaðilum. Við höfum talað fyrir því. Við höfum líka talað fyrir því að fara inn í SWIFT-kerfið eins og svo var ákveðið að gera af því að við teljum að það sé gríðarlega mikilvægt að ná raunverulegum árangri með þessum refsiaðgerðum, að þær bíti í raun og veru og hafi þau áhrif að Rússar láti af hernaði.