152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála.

294. mál
[15:49]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að setja málefni vinnumarkaðarins hér á dagskrá. Það veitir nú ekki af. Það er alveg hárrétt, og ég ætla ekkert að endurtaka það sem hv. þingmaður fór yfir, að ég skipaði þessa nefnd um gerð grænbókar á haustmánuðum 2020 og vinna hennar hófst í nóvember það ár. Eins og hv. þingmaður fór hér yfir þá átti hún að fjalla með dálítið breiðum hætti um umgjörð á íslenskum vinnumarkaði, skoða löggjöf, regluverk og breytingar á vinnumarkaði, m.a. í tengslum við tæknibreytingar sem ég veit að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á. Það var leitað samráðs við heildarsamtök á vinnumarkaði, auk þess sem fulltrúar frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og embætti ríkissáttasemjara komu að þessari vinnu. Strax í upphafi var kallað eftir efni og áliti aðila vinnumarkaðarins um helstu viðfangsefni og álitamál í tengslum við þau.

Það er skemmst frá því að segja að það komu mjög takmörkuð viðbrögð við þessum óskum. Stórir aðilar lýstu miklum efasemdum um þetta verklag. Það þyrfti að gefa þessari vinnu mun meiri tíma en áætlað var. Samtalið þyrfti að eiga sér stað á vettvangi formanna heildarsamtaka, forystufólks, stjórnvalda áður en hægt væri að taka það lengra. Það sem við höfum gert til að hlusta á þessar raddir er að við höfum litið til vettvangs þjóðhagsráðs. Eins og hv. þingmaður þekkir var þjóðhagsráð aðila vinnumarkaðarins, stjórnvalda og Seðlabankans fyrst sett á laggirnar 2016 en í tengslum við lífskjarasamninga var hlutverk þess endurskoðað og útvíkkað fyrir breiðari aðkomu og sjónarmið innan ráðsins. Þannig hefur þjóðhagsráð í raun orðið að einhverju leyti vettvangur þessarar mikilvægu umræðu. Þar sitja formenn stjórnmálaflokka sem aðild eiga að ríkisstjórn hverju sinni, ætíð forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, forystufólk Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, BSRB, Kennarasambandsins, Samtaka atvinnulífsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Seðlabankans.

Það er skemmst frá því að segja að það hafa verið haldnir mjög tíðir fundir í þjóðhagsráði og á árunum 2020 og 2021 voru haldnir mjög margir aukafundir vegna Covid. Það er auðvitað rétt sem hv. þingmaður segir hér að vissulega tók heimsfaraldur að einhverju leyti yfir þau verkefni sem við vorum að vinna með aðilum vinnumarkaðarins, en við höfum líka verið að ræða á vettvangi þjóðhagsráðs ýmis þau atriði sem segja má að skipti máli fyrir umgjörð vinnumarkaðarins. Á síðasta fundi okkar ræddum við til að mynda hlutverk ríkissáttasemjara og hvaða umbótum er hægt að ná fram í kjaraviðræðum. Þar var kallað eftir frekari tölfræði og frekari gögnum, til að mynda þegar kemur að því að meta tímann sem líður frá því að samningar losna og þar til sest er við samningaborð. Það hefur verið gagnrýnt að við séum með allt of marga samninga sem hreinlega klárast áður en sest er að samningaborðinu, svo dæmi sé tekið. Við höfum líka verið á vettvangi þjóðhagsráðs að ræða efnahagsmálin og stöðu þeirra, sem er auðvitað sérstök að loknum heimsfaraldri eftir umfangsmiklar efnahagsaðgerðir, hvernig skuli halda áfram, og einnig húsnæðismál. Og það var eftir umræður á vettvangi þjóðhagsráðs sem ég ákvað að setja af stað framhaldsátakshóps um húsnæðismál.

Fram undan eru fundir um afkomuöryggi, almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar, stuðning við barnafjölskyldur, sí- og endurmenntun og tengsl hennar við vinnumarkaðinn og ekki síður andlega heilsu á vinnumarkaði. Það má segja að á þessum vettvangi hafi aðilar vinnumarkaðarins sett á dagskrá þau atriði sem þeir meta mikilvæg fyrir umgjörð vinnumarkaðsmála. Og ef ég ætti að reyna að miðla því hér hver áherslan er þá myndi ég segja að það sé mjög mikill þungi í því að vilja ræða vinnumarkaðsmálin í samhengi við velferðarmál í breiðum skilningi þess orðs, þ.e. ekki bara stuðningskerfin okkar heldur líka það sem lýtur að framhaldsfræðslu, vinnumarkaðsaðgerðum, hreyfanleika á vinnumarkaði og öðru slíku.

Svo ég dragi þetta saman í mjög stutta samantekt þá höfum við tekið þessi mál upp til fyrstu umræðu, getum við sagt, á vettvangi þjóðhagsráðs og ég vonast til þess að sú umræða muni svo skila sér í framhaldsvinnu þar sem það var alveg ljóst að aðilum fannst grænbókarvinna ekki getað farið af stað nema hún hefði verið rædd á þessum vettvangi áður. Við þurfum eiginlega bara að meta stöðuna eftir því sem þessari vinnu okkar á vettvangi þjóðhagsráðs vindur fram.

(Forseti (BÁ): Forseti vill minna á að á fyrirspurnafundi sem þessum þá geta aðrir þingmenn en ráðherrar og málshefjendur tekið til máls einu sinni í eina mínútu.)