152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála.

294. mál
[15:54]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að í þingsal skuli koma þessi mál sem skipta svo miklu máli og hafa svo mikil áhrif, bara upp á framtíðarstöðu okkar sem samfélags en ekki síður stöðu almennings í landinu, með hvaða hætti við nálgumst kjarasamninga sem skipta máli. Hæstv. forsætisráðherra nefnir hér að launþegahreyfingar vilji ræða kjarasamninga samhliða velferðarmálum og það er auðvitað bara skiljanlegt. Hér er sýknt og heilagt verið að ræða að við þurfum að búa til eitthvað sem heitir íslenskt vinnumarkaðsmódel í einhverju samhengi við norrænt vinnumarkaðsmódel. En það gerist aldrei vegna þess að við upplifum allt annan veruleika hvað stöðugleika varðar á Íslandi sem ekki er til staðar á Norðurlöndum. Þar býr fólk við ákveðinn stöðugleika og það er ekkert hægt að ætlast til þess að launþegahreyfingar semji um eitthvað á meðan umgjörðin og undirstöðurnar eru ekki í lagi.