152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála.

294. mál
[15:57]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það að það er mikilvægt að við ræðum þessi mál hér þó að ég hafi almennt verið á því að það eru aðilar úti á markaði sem eiga að semja og við sem þing eigum ekki að taka þátt í því. En þetta umhverfi virðist vera svo séríslenskt. Á Norðurlöndunum eru almennt fyrirliggjandi nýir kjarasamningar þegar samningar renna út eða í 90% tilfella. Hér er það núll. Það gerist bara ekki að það sé nýr kjarasamningur á borðinu þegar kjarasamningur rennur út og það er auðvitað eitthvað sem við verðum að breyta. Ég veit að ríkisstjórnin hefur haft ákveðið ákvæði um þetta í sínum sáttmála og hér er vísað í undirbúningsvinnu fyrir það, þannig að ég held að það sé svo sannarlega mikilvægt að við ræðum þessi mál og komumst niður á einhvern sameiginlegan flöt hvað það varðar. En þetta er ekki mál sem við ein getum ákveðið hér heldur snýst þetta um samstarf. Þetta snýst um samstarf þeirra sem eru úti að semja og þá er mjög mikilvægt að verkalýðshreyfingin komi að borðinu og við sameinumst öll um mikilvægi þess að við höfum hér kjarasamninga sem almennt gilda til lengri tíma og við höfum meiri fyrirsjáanleika í vinnumarkaðsmálum.