152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

staða heimilanna í efnahagsþrengingum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

120. mál
[16:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):

Virðulegi forseti. Fyrsta spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra snýr að því hvernig ráðherra hyggist bregðast við þeim áhrifum sem hækkandi verðbólga hefur á verðtryggðar skuldbindingar heimila og hvort komi til greina að setja þak á þau áhrif eða leiðrétta, líkt og fordæmi eru fyrir. Leigusamningar eru langflestir verðtryggðir og þegar hefur leiga hækkað um tugi þúsunda hjá fjölmörgum. Ég vona að hæstv. ráðherra ætli ekki að reyna að bjóða þessum heimilum upp á að halda því fram að meðaltöl sýni að launakjör þessara heimila hafi batnað svo gríðarlega að hér sé engra aðgerða þörf. Það er ekki raunveruleikinn sem þessi heimili búa við og þau vita betur. Ég frábið mér tal um skjól verðtryggingar á erfiðum tímum og að greiðslubyrði lána hækki ekki, því að það er beinlínis rangt. Vextir verðtryggðra lána munu hækka eins og vextir annarra lána og afborganir þeirra því hækka. En að auki mun 30 millj. kr. lán bæta heilum 7 milljónum við sig á lánstímanum bara út af þessu eina ári. Það er hár kostnaður að sitja uppi með vegna þessa eina árs og þessi hækkun upp á heilar 7 millj. kr. miðast við að verðbólga hækki ekki frekar á árinu, sem allt stefnir þó í.

Önnur spurning snýr að því hvernig ráðherra hyggst sjá til þess að þær vaxtalækkanir sem þegar hafa komið fram af hálfu Seðlabanka Íslands skili sér að fullu til neytenda. Vaxtalækkanir Seðlabankans skiluðu sér ekki nema að nokkru leyti til neytenda en hækkanir hans skila sér hins vegar alltaf að fullu. Hvernig hyggst hæstv. fjármálaráðherra taka á þessu misræmi eða finnst honum bara allt í lagi að bankarnir geti alltaf hagað málum sér í hag á kostnað neytenda?

Þriðja spurningin snýst um hvort ráðherra telji koma til greina að grípa til aðgerða fyrir heimilin vegna þeirra vaxtahækkana sem virðast vera í uppsiglingu, svo sem með því að setja þak á vexti húsnæðislána eða leiðrétta fyrir hækkun þeirra líkt og fordæmi eru fyrir. Síðan þessi spurning var lögð fram hafa vaxtahækkanir þegar orðið og aðgerðaleysi ráðherra við vaxtahækkunum bankanna, sem eru þegar komnar yfir það sem samið var um í lífskjarasamningunum, segir sína sögu og veitir kannski svar við þessari spurningu. En engu að síður væri gott að fá það staðfest hvort það séu bankarnir sem ráða mestu um afkomu þjóðarinnar og hvort ríkisstjórnin beygi sig undir ákvarðanir þeirra sem enginn hefur kosið til að fara með svo mikil völd.

Fjórða spurningin er hvort ráðherra telji koma til greina að bregðast við þeim fordæmalausu aðstæðum sem heimsfaraldurinn hefur skapað, með aðgerðum til að tryggja að enginn þurfi að missa heimili sitt af þeim orsökum. Það á enginn að þurfa að missa heimili sitt vegna afleiðinga Covid-19. Það minnsta sem ríkisstjórnin getur gert er að létta þeim áhyggjum af fólki og lofa því að einstaklingar og fjölskyldur verði varin gegn heimilismissi í stað þess að setja það í hendur bankanna, enda er það uppskrift af hörmungum, eins og nýleg dæmi sanna.

Í raun má segja að þessar spurningar snúist um hver stjórni þessu þjóðfélagi; kjörnir fulltrúar eða bankarnir sem enginn hefur kosið.