152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

staða heimilanna í efnahagsþrengingum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

120. mál
[16:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Eitt af meginmarkmiðum Seðlabanka Íslands er að verðbólgan sé sem næst 2,5% á tólf mánaða grundvelli. Sveiflur í efnahagslífinu leiða þó til þess að verðbólgan sveiflast í kringum þetta markmið. Þróttmikill efnahagsbati og erfiðleikar í aðfangakeðjum heimsins hafa leitt til hækkunar verðbólgu á alþjóðavísu. Þessi alþjóðlega þróun ásamt hækkun húsnæðisverðs hafa drifið áfram verðbólgu sem er nú ríflega 6%. Þegar litið er til samevrópsks mælikvarða á verðbólgu er hún engu að síður svipuð á Íslandi og annars staðar í Evrópu og það gildir þessi misserin og reyndar svona að jafnaði.

Hvað varðar leiguverðið sérstaklega er árshækkun þess nú 3% eða nálægt verðbólgumarkmiði. Þetta er það sem mælingarnar sýna okkur.

Í ljósi sögunnar er eðlilegt að Íslendingar óttist verðbólgu. Hins vegar þarf að hafa í huga að umgjörð efnahagsmála hefur gjörbreyst til hins betra á undanförnum árum. Þótt verðbólgan hafi hækkað er hún mun lægri en í kjölfar fyrri efnahagsáfalla. Allar spár gera ráð fyrir að verðbólga lækki á ný á næsta ári. Kaupmáttur heimilanna hefur vaxið þrátt fyrir faraldurinn og spár gera ráð fyrir enn frekari kaupmáttarvexti. Þetta á sérstaklega við um þá tekjulægri, en nefna má að breytingar stjórnvalda á tekjuskattskerfinu hafa bætt hag þess hóps sérstaklega. Þá er rétt að hafa í huga að skuldir heimilanna eru nú meira en þriðjungi lægri, í hlutfalli við ráðstöfunartekjur, en fyrir áratug síðan. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli, að skoða hverjar ráðstöfunartekjurnar eru og bera það saman við skuldirnar og greiðslubyrði þeirra.

En ef við skoðum þetta í hlutfalli við landsframleiðslu þá eru skuldir heimilanna hvergi lægri á Norðurlöndunum en hér. Þá hafa heimilin nú val um lánaform og geta flest með einföldum hætti flutt lán milli tegunda og lánveitenda. Í því samhengi má nefna að einungis helmingur útistandandi húsnæðislána er verðtryggður, sem er veruleg breyting frá því sem áður var. Staða heimilanna er allt önnur og betri en í kjölfar fyrri efnahagsáfalla. Ríkisstjórnin mun áfram leggja mikla áherslu á að verðbólga haldist lág og stöðug, en það gengur best með ábyrgri stjórn ríkisfjármála sem stuðlar að stöðugleika, fremur en að ýta undir þenslu og verðlagshækkanir.

Undanfarið höfum við tekið stór skref í samræmi við tillögur í hvítbók um fjármálakerfið. Neytendum hefur til að mynda verið gert kleift að flytja sig með lágmarkstilkostnaði á milli lánastofnana. Í lögum um fasteignalán hefur verið sett hámark á uppgreiðslugjald sem er 0% í tilfelli lána með breytilegum vöxtum og eykur verulega samkeppni á milli lánastofnana. Að auki hefur stimpilgjald af lánaskjölum verið fellt niður og bankaskatturinn lækkað mikið, m.a. til að stuðla að lægri fjármagnskostnaði heimilanna. Með þessum aðgerðum hafa stjórnvöld stuðlað að heilbrigðu fjármálakerfi sem ætti að tryggja betur að þær breytingar á vöxtum sem Seðlabankinn ákvarðar skili sér til heimilanna, enda höfum við aldrei í okkar hagsögu haft hagstæðari húsnæðisvexti en undanfarin ár.

Samkeppni á íbúðalánamarkaði virðist hafa aukist talsvert, og aukin hagkvæmni í bankarekstri skilað sér til neytenda, en vaxtamunur innlána- og útlánavaxta banka, sem er einn mælikvarði á þetta, hefur ekki verið lægri í um áratug.

Þótt stýrivextir hafi farið hækkandi, eftir að hafa lækkað meira en fordæmi eru fyrir, eru allar líkur á að vextir verði áfram lágir í sögulegum samanburði. Í því samhengi er rétt að benda á það sem fram hefur komið hjá peningastefnunefnd, að aukið vægi óverðtryggðra íbúðalána sé tilefni til að taka varfærnari skref í vaxtahækkunum en ella. Það er þess vegna fátt sem bendir til þess að þróun vaxta á húsnæðislánum muni kalla á víðtækar eða almennar mótvægisaðgerðir af hálfu stjórnvalda.

Að lokum. Í upphafi faraldursins buðu bankarnir og lífeyrissjóður í samráði við stjórnvöld upp á greiðsluhlé á íbúðalánum. Raunin varð sú að færri þurftu á því úrræði að halda en óttast var og engin merki eru um að greiðsluerfiðleikar heimila hafi aukist mikið frá því fyrir faraldurinn. Hins vegar er mikilvægt að fylgjast áfram vel með þróun mála. Þess vegna fagna ég þessari áherslu hjá hv. þingmanni sem ég tel að sé til fyrirmyndar og skipti miklu máli. Við verðum að fylgjast mjög vel með þessari stöðu. En þeir einstaklingar sem glíma við fjárhagsvanda geta lagt fram umsókn um aðstoð hjá umboðsmanni skuldara. Sú stofnun leitar lausna fyrir viðskiptavini (Forseti hringir.) með eins mildum úrræðum og hægt er og greiðsluaðlögun er eitt af þeim. Reynslan af þessari aðstoð er góð og eins og staðan er núna er ekki að sjá þörf fyrir önnur úrræði.